Leikfélag Hveragerðis frumsýndi Ávaxtakörfuna í lok september og hafa viðtökurnar ekki staðið á sér. Uppselt er á allar sýningar fram að jólum en síðasta sýning fyrir jól er sunnudaginn 8. desember. Þá fá leikarar og baksviðsfólk kærkomið jólafrí en þá verður búið að sýna 22 sýningar fyrir fullu húsi.

Það er alltaf ánægjulegt þegar sýningar ganga vel og leikhópurinn og aðstandendur fá að uppskera ríkulega laun erfiðisins frá æfingatímabilinu. Það er alls ekki sjálfgefið að sýningar áhugaleikfélaga gangi svona vel og erum við virkilega glöð með viðtökurnar. Með þessum viðtökum erum við að fá staðfestingu á því að sú mikla vinna og metnaður sem var lagður í undirbúninginn sé að skila sér til áhorfenda og útkoman er virkilega góð og vönduð sýning. Leikur, söngur og öll umgjörð sýningarinnar er með besta móti á mælikvarða áhugaleikhússins og sumir sýningargestir hafa meira að segja haft á orði að mörkin milli áhugaleikhúss og atvinnuleikhúss séu vart greinanleg á þessari sýningu. En það sem skiptir þó mestu máli er boðskapur verksins sem á erindi sem víðast, því þarna er verið að taka á erfiðum málefnum líkt og einelti, fordómum og útskúfun á einfaldan og myndrænan hátt. Öll börn hafa gott af því að meðtaka þennan boðskap og temja sér betri samskipti í kjölfarið.

Þeir sem ekki hafa náð miðum sýninguna þurfa ekki að örvænta því sýningar í janúar eru komnar í sölu á Tix.is. Hópapantanir og fyrirspurnir fara fram í gegnum netfangið leikhver@gmail.com, en sýningin hentar vel fyrir skólahópa.