Hugleikur
Helgi dauðans
Leikstjórar: Rúnar Lund og Sigurður Pálsson
Ég hef stundum stungið upp á því að kalla síðustu aldamótakynslóð á Íslandi, „Friends“ kynslóðina, því að engin kynslóð hefur verið eins mikið mótuð af þessari amerísku sjónvarpsþáttaseríu og hún. Það var því ánægjuefni að sjá íslenskan leikritahöfund loksins takast á við það verkefni að skoða þennan hóp þar sem pítsur og djamm eru fastir punktar í tilverunni.
Það er augljóst að Sigríður Lára Sigurjónsdóttir höfundur verksins tekur ákveðið mið af persónum Friends þáttana í sumum þeirra persóna sem birtast á sviðinu, þótt að þær séu ögn ýktari en í þáttunum. Hver þekkir t.d. ekki góðu stelpuna sem heldur heimilinu í horfinu og mislukkaða kvennabósann sem er óvart með tvær í takinu. Gáfumennin einstöku og skinkurnar tvær eru einnig kunnugleg. Framsetning verksins, sem gerist öll á sama stað, er einnig í anda bandarískra gamanþátta. Þarna hefur höfundi tekist vel til. Persónur eru sannferðugar og skemmtilegar, samtöl ísmeygileg og fyndin, og framvinda og flétta ganga vel upp. Það má líka hrósa höfundi fyrir að þrátt fyrir allt glensið er ekki langt í óhugnaðinn og vangaveltur um rasisma gott innlegg.
Leikarar í sýningunni stóðu sig mjög vel. Þar voru eftirminnileg Dagný, Sigríðar Báru Steinþórsdóttur sem túlkaði vel huggulegu og góðu stelpuna, Birtingur, Stefáns Geirs, sem var í senn fyndinn og aumkunarverður og Ninna, Þuríðar Blær sem var leikin af mikilli innlifun og óhugnaði á stundum. Ragnheiður Bogadóttir lék síðan Jóu Jóðl af miklum krafti. Það er svo ekki hægt annað en að minnast á pörin tvö sem uppskáru einna mestan hlátur á sýningunni. Matthíasi Freyr Matthíasson og Flosi Þorgeirsson skiluðu vel uppskrúfuðu gáfumennunum og þær María Björt Ármannsdóttir og Linda Hrönn Halldórsdóttir voru alveg óborganlegar skinkur með eitt fyndnasta atriði sýningarinnar.
Það eru nokkur atriði sem hefðu mátt fara betur í sýningunni og hefðu þjónað verkinu betur. Leikstjórn var nokkuð losaraleg og skiptingar kauðalegar. Partísenu og „morð“ hefði t.a.m. frekar mátt útfæra betur. Leikmyndin er skrítin og erfitt að trúa því að hún sé stofa í Vesturbænum. Ef hún hefur átt að vera ákveðin stílfærsla er hún á skjön við leikverkið.
Að öllu sögðu er Helgi Dauðans gott höfundarverk og leikur góður en útfærslan hefði mátt vera betri. Verkið er hin besta skemmtun og Hugleikur fær frá mér 2 ½ stjörnu í þetta skiptið.
Lárus Vilhjálmsson