Nú fyrir skemmstu réð Borgarleikhúsið sex ung skáld til að skrifa leikverk fyrir húsið. Það eru þau Auður Jónsdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Didda, Salka Guðmundsdóttir, Heiðar Sumarliðason, Tyrfingur Tyrfingsson. Fyrr á þessu ári réð Borgarleikhúsið sex ung leikskáld til að semja stutt verk fyrir leikhúsið. Stefnt er að uppsetningu hluta þeirra á næsta ári. Nú auglýsir leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur í þriðja sinn eftir umsóknum um stöðu Leikskálds Borgarleikhússins. Stjórnarformaður Leikritunarsjóðs er frú Vigdís Finnbogadóttir.

Markmið sjóðsins er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Stjórn sjóðsins velur höfund úr hópi umsækjenda sem býðst eins árs samningur við Borgarleikhúsið. Skáldið fær aðstöðu í leikhúsinu, vinnur þar á samningstímanum og verður hluti af starfsliði Borgarleikhússins og nýtur aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra og leiklistarráðunauta. Unnið skal að ritun leikverks á tímabilinu með uppsetningu í huga, auk þess sem skáldið kynnir sér leikhúsformið. Stefnt er að því að leikverk, eitt eða fleiri, sem unnin eru á samningstíma, verði sviðsett í Borgarleikhúsinu. Tvö leikskáld hafa þegar starfað á vegum leikritunarsjóðsins með prýðilegum árangri, Auður Jónsdóttir árið 2009 og Jón Gnarr árið 2010.

Leikrit Auðar Jónsdóttur, bíður uppsetningar en leikgerð á skáldsögu hennar Fólkið í kjallaranum sem sett var upp á síðasta leikári gekk fyrir fullu húsi fram á s.l. haust, fékk afbragðsdóma og níu tilnefningar til Grímunnar, m.a. sem sýning ársins og höfundar verksins, þau Auður Jónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson voru valin leikskáld ársins. Leiksýning í heild sinni verður á dagskrá Ríkissjónvarpsins nú um páskana. Jón Gnarr skrifaði verkið Hótel Volkswagen í starfi sínu sem leikskáld hússins áður en hann hvarf frá störfum til að taka við embætti Borgarstjóra Reykjavíkur. Nú eru æfingar á Hótel Volkswagen í fullum gangi og er frumsýningu verksins á Stóra sviðinu 24. mars næstkomandi beðið með mikilli eftirvæntingu. Leikstjóri er Benedikt Erlingsson en þeir Jón hafa áður unnið saman í þáttunum Fóstbræður sem orðnir eru sígildir fyrir löngu.

Um leikritunarsjóð LR
Á aðalfundi Leikfélags Reykjavíkur 15. október 2007 var samþykkt stofnun sérstaks sjóðs til eflingar leikritunar. Markmið sjóðsins er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Formaður stjórnar Leikritunarsjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur. Aðrir í stjórn eru Brynjólfur Bjarnason og Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri. Auglýst er eftir leikskáldi ár hvert og stjórnin velur skáld úr hópi umsækjenda sem boðið eins árs samningur við Borgarleikhúsið. Viðkomandi skal þegar hafa sýnt árangur á ritstörfum og skáldskap. Miðað er við að skáldið fái aðstöðu í leikhúsinu, vinni þar á samningstímanum og sé hluti af starfsliði Borgarleikhússins og sæki reglubundið fundi leikhússtjóra og leiklistarráðunauta. Kappkostað er að veita leikskáldinu aðgang að allri starfsemi Borgarleikhússins og kynna því eiginleika leiksviðsins og töframátt þess. Það mun  njóta aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra, leiklistarráðunauta og annars starfsfólks leikhússins og eiga kost á samræðum við leikara, leikstjóra og leikmyndahöfunda auk þess að sitja æfingar á verkefnum Borgarleikhússins. Umsóknarfrestur er til 15. mars 2012.

{mos_fb_discuss:2}