ImageFöstudaginn 9. september verður leikritið Pakkið á móti eftir Henry Adam tekið til sýninga á ný hjá LA. Leikritið verður einungis sýnt í september. Leikritið vakti verðskuldaða athygli þegar það var frumsýnt síðastliðið vor og komust færri að en vildu. Pakkið á móti hlaut hins vegar alveg nýja merkingu eftir hryðjuverkaárásirnar á London 7. júlí s.l. Fréttir af árusunum standa óhugnanlega nærri verkinu og má því lofa væntanlegum áhorfendum nú í september óvenjulegri leikhúsupplifun. Leikritið hefur hvarvetna vakið athygli enda í senn drepfyndið og áleitið.

 Líf Nigels er bara déskoti fínt. Hann er svona rólegur gaur sem fær sér jónu og horfir á sjónvarpið. Það er því djöfulli skítt þegar gjörspillt lögga neyðir hann til að leggja gildru fyrir hálfbróður sinn sem er víst eftirlýstur hryðjuverkamaður! Sérstaklega þar sem hann hefur ekki séð bróður sinn í 7 ár – og er slétt sama.

Pakkið á móti var frumsýnt hjá LA á síðasta ári og vakti mikla athygli enda er þetta verk sem ekki er hægt að láta sér standa á sama um. Stungið er á ýmsum kýlum og áleitnum spurningum velt upp, en þó umfjöllunarefni verksins sé alvarlegt eru efnistökin drepfyndin. Pakkið á móti stendur skuggalega nærri fréttum af hryðjuverkaárusunum á Bretland nú í sumar. Fréttir líðandi stundar eru oft lygilegri en sagan sem sögð er á sviðinu… Fyrstu sýningar eru föstudaginn 9. september og laugardaginn 10. september.
Image
Leikritið sló í gegn á Edinborgarhátíðinni þar sem það hlaut verðlaun sem besta nýja leikritið. Meðal þess sem gagnrýnendur hafa sagt er:
“sprenghlægilegt… í orðsins fyllstu merkingu” Independent, “djarft, heillandi og fáránlega fyndið” Time out magazine. Eftir frumuppfærsluna í Edinborg hefur leikritið verið selt til fjölda landa og verður sett upp víða um heim á þessu ári og því næsta.

Leikarar í Pakkinu á móti eru: Víkingur Kristjánsson (sem starfað hefur með Vesturporti), Jón Páll Eyjólfsson (sem nú leikur í Óliver), Hildigunnur Þráinsdóttir (sem er Akureyringum að góðu kunn, enda hefur hún leikið nokkuð hjá LA) og Ólafur Steinn Ingunnarsson. Leikstjóri er Agnar Jón Egilsson, leikmynd og búninga hannar Sigurjón Jóhannsson, ljósahönnuður er Björn Bergsteinn Guðmundsson og þýðing og frumsamin tónlist er í höndum Úlfs Eldjárns.