ImageÞjóðleikhúsið tekur á móti RAMT-leikhúsinu frá Moskvu dagana 8.-11. september. Leikhúsið setur upp tvær sýningar hér á landi; Kirsuberjagarðinn eftir Anton Tsjekov og Að eilífu eftir Árna Ibsen.

Rossisky Akademicesky Molodezhny Teater – Leikhús æskunnar
RAMT-leikhúsið var stofnað árið 1921 af þjóðarlistakonunni Natalíu Sats. Hún var jafnframt listrænn stjórnandi leikhússins á árunum 1921-1937. Á þessum árum hét leikhúsið "Moskvuleikhús barnanna" og var til húsa í gömlu kvikmyndahúsi. Árið 1936 fékk leikhúsið inni í sögufrægri byggingu við Leikhústorgið í Moskvu, til vinstri við Bolsjoij-leikhúsið og til hliðar við vetrarsal "Litla leikhússins" í Moskvu. Þessi bygging hafði þá þegar öðlast sess í lista- og menningarlífi Rússa. Á árunum 1924-1936 starfaði í húsinu leikhússtúdía Listaleikhússins í Moskvu (MXATII) undir stjórn leikarans Mikhails Tsjekov. Sá leikhópur var leystur upp af yfirvöldum og byggingin fengin Moskvuleikhúsi barnanna. Við leikhúsið hafa m.a. starfað heimsfrægir leikstjórar á borð við Efros, Tovstongov og Oleg Efremov en hann hóf starfsferill sinn þar. Frá 1992 hefur leikhúsið verið "Leikhús æskunnar". Þar eru gerðar tilraunir með ný form leikhúslistarinnar en þó undir merkjum hefða og gilda Stanislavskíj-skólans. Efnistökin eru sótt í klassískar heimsbókmenntir, erlendar og innlendar, sem og í samtímaleikrit og sögur. Alexej Borodin, þjóðarlistamaður Rússlands, hefur nú stýrt leikhúsinu í ríflega 20 ár og hefur kjörorð þess verið listræn einlægni og nálægð.

Sýningarnar
Kirsuberjagarðurinn eftir Anton Tsjekov. Fögur lífsnautnakona og óðalseigandi á stærsta kirsuberjagarði í Rússlandi. En hvað dugar það gegn nútímanum, sem skilur ekki fegurðina í lífinu og krefst þess að öllu sé komið í verð? Eitt skemmtilegasta og vinsælasta verk þessa snjalla höfundar. Leikstjóri er Alexej Borodin en hann setti upp  Feður og syni árið 1997 og Djöflana í Borgarleikhúsinu árið 2000. Borodin er margverðlaunaður í heimalandi sínu fyrir störf sín og hefur stýrt Leikhúsi æskunnar frá árinu 1980. Kirsuberjagarðurinn verður sýndur 8. og 9. september á Stóra sviðinu.

Að eilífu eftir Árna Ibsen. Háðádeila um hið ofvaxna og yfirþyrmandi efnishyggjufyrirbæri, nútímabrúðkaup á Íslandi. Leikritið er byggt eins og kvikmyndahandrit. Atriðin sextíu eru fjölbreytt og spanna allt frá örstuttum gamanskissum til margslunginna farsaatriða, tónlistarnúmera og skrautsýninga. Leikstjóri er leikarinn Raivo Trass frá Eistlandi. Sýning þessi hefur gengið fyrir fullu húsi í Moskvu á þriðja ár og verður fróðlegt að sjá hvaða tökum Rússarnir taka þetta skemmtlega verk Árna. Að eilífu verður sýnt 10. og 11. september á Stóra sviðinu.

Hópurinn
Alls koma um 60 manns til landsins nú; leikarar, listrænir aðstandendur og tæknifólk. Undirbúningur vegna heimsóknarinnar hefur staðið yfir í frá því í janúar enda að mörgu að huga þegar svo stór hópur leggur land undir fót.