Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir gamanleikinn Með táning í tölvunni á miðvikudaginn kemur, þann 20. apríl kl. 20 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Höfundur verksins er Ray Cooney, þýðinguna gerði Jón St. Kristjánsson og leikstjóri er Arnar S. Jónsson. Um er að ræða nútímalegt verk sem hefur allt til að bera sem prýðir góðan gamanleik.

Sjö leikarar fara með hlutverk og eru nokkrir þeirra að stíga í fyrsta sinn á svið með leikfélagi Hólmavíkur. Auk leikaranna tekur fjöldi fólks þátt í undirbúningi á bak við tjöldin. Áformað er að þrjá sýningar verði á Hólmavík í páskavikunni og jafnvel ein til viðbótar í maí, ef næg aðsókn fæst. Síðan stendur til að fara í sýningarferð um Vestfirði um sjómannadagshelgina.

Leikfélagið fagnar 30 ára afmæli sínu um þessar mundir og má því búast við fleiri uppákomum áður en árið er á enda. Þess má geta að Café Riis á Hólmavík ætlar að vera með opið í pizzur kl 17.30-20.00 á frumsýningardaginn svo það er tilvalið að fá sér pizzu áður en haldið er á leiksýningu. Þá er upplagt fyrir þá sem leggja leið sína á Aldrei fór ég suður á Ísafirði að byrja ferðina á Hólmavík og sjá leiksýningu.

{mos_fb_discuss:2}