Haldinn á Hótel KEA á Akureyri 9. – 10. október 2004
Einar Rafn Haraldsson, formaður og fundarstjóri setti fund.
Fundarmenn kynntu sig:
Einar Rafn Haraldsson, formaður, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, Egilsstöðum
Guðrún Halla Jónsdóttir, varaformaður, Freyvangsleikhúsinu, Eyjafirði
Lárus Vilhjálmsson, ritari, Leikfélagi Hafnarfjarðar
Hörður Sigurðarson, meðstjórnandi og lénsherra, Leikfélagi Kópavogs
Júlíus Júlíusson, meðstjórnandi, Leikfélagi Dalvíkur
Margrét Tryggvadóttir, varastjórn, Leikfélagi Rangæinga, Hvolsvelli
Guðrún Esther Árnadóttir, varastjórn, Leikfélagi Mosfellssveitar
Ármann Guðmundsson, varastjórn, Hugleik, Reykjavík
Vilborg Árný Valgarðsdóttir, framkvæmdastjóri, Reykjavík
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, starfsmaður, Reykjavík
Gunnhildur Sigurðardóttir, skólameistari, Leikfélagi Mosfellssveitar
María Gunnarsdóttir, Freyvangsleikhúsinu
Ingólfur Þórsson, Freyvangsleikhúsinu
Dýrleif Jónsdóttir, Freyvangsleikhúsinu
Elísabet Friðriksdóttir, Freyvangsleikhúsinu
Árni Friðriksson, Freyvangsleikhúsinu
Hrefna Friðriksdóttir, Hugleik, Reykjavík
Örn Sigurðsson, Halaleikhópnum, Reykjavík
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum, Reykjavík
Freyja Kristjánsdóttir, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, Egilsstöðum
Snorri Emilsson, Leikfélagi Seyðisfjarðar
Lilja Kristinsdóttir, Leikfélagi Seyðisfjarðar
Gunnar Björn Guðmundsson, Leikfélagi Hafnarfjarðar
Brynhildur Guðmundsdóttir, Leikhópnum Veru, Fáskrúðsfirði
María Óskarsdóttir, Leikhópnum Veru, Fáskrúðsfirði
Kristín Guðjónsdóttir, Leikfélagi Blönduóss
Hólmfríður Jónsdótttir, Leikfélagi Blönduóss
Hrund Ólafsdóttir, Leikfélagi Kópavogs
Guðrún Lára Pálmadóttir, Leikfélaginu Sýnir
Hallveig Ingimarsdóttir, Leikfélagi Djúpavogs
Ása Gísladóttir, Leikfélagi Húsavíkur
Anna Ragnarsdóttir, Leikfélagi Húsavíkur
Dómhildur Antonsdóttir, Leikfélagi Húsavíkur
Regína Sigurðardóttir, Leikfélagi Húsavíkur
Fanney Valsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla
Guðmundur Steindórsson, Leikfélagi Hörgdæla
Hólmfríður Helgadóttir, Leikfélagi Hörgdæla
Sesselja Ingólfsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla
Pétur R. Pétursson, Leikfélagi Mosfellssveitar
Ólöf A. Þórðardóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Birgir J. Sigurðsson, Leikfélagi Mosfellssveitar
Þóra Margrét Birgisdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar
Ragna og Hafliði, Leikklúbbnum Sögu
Einar Rafn reifaði verkefni haustfundar.
Dagskrá:
1. Undirbúningur vegna leiklistarhátíðar á Akureyri dagana 22. til 26. júní 2004.
2. Námskeiðaáætlun skólanefndar Leiklistarskóla Bandalags ísl. leikfélaga fyrir árið 2005 lögð fram.
3. Bandalags-Gríman vegna leikársins 2004-2005.
4. Nýjar úthlutunarreglur vegna styrkja Menntamálaráðuneytisins.
5. Kynnt hvaða félög taka þátt í Margt smátt í Borgarleik-húsinu 23. október.
6. Önnur mál.
1. Leiklistarhátíð á Akureyri 2005
Lárus Vilhjálmsson, formaður undirbúningsnefndar leiklistarhátíðar, tók til máls. Aðrir í nefndinni eru Vilborg Valgarðsdóttir og Guðrún Halla Jónsdóttir.
Lárus kynnti skipulag undirbúningsvinnu hátíðarinnar. Byggt á undirbúningsvinnu hátíðar 2000 sem tókst mjög vel.
Skráningarblöð fyrir starfsfólk hátíðar kynnt.
Fundarmönnum skipt í umræðuhópa sem tóku þegar til starfa. Hópunum var falið að gera tillögur að nafni á hátíðina og ræða ýmis skipulagsatriði. Einnig var auglýst eftir hugmyndum varðandi hvaðeina sem tengdist hátíðinni.
(Umræðuhópar fengu ca. 45 mínútur til að gera tillögur.)
Fundurinn kom saman aftur. Starfshópar kynntu niðurstöður sínar.
Dýrleif Jónsdóttir talaði fyrir tillögum hóps 1.
– Tillögur að nafni á hátíðina: Leikur er list, Lífið er leikur, Leikur 2005, Leiklistarmót, Dáleiðsla og raðfullnægingar, Leiklist.is.
– Hópurinn gerði að tillögu sinni að gagnrýnifundir yrðu haldnir í hátíðaklúbbnum á kvöldin.
– Hópurinn var á móti verðlaunaafhendingum. Þeim þóttu næg verðlaun að fá að taka þátt í hátíðinni.
– Vegleg opnunarhátíð verði haldin í formi götuleikhúss.
– Lokahóf. Ekki stórt húsnæði eða of stíft, „soldið wild en samt þannig að snyrtimennskan sé í fyrirrúmi.“ Hlutir úr leiksýningum verði hafðir til sýnis á lokahófsstað.
– Ákveða þarf lit hátíðarinnar.
– Spurning um að hafa furðufatakvöld.
– Námskeið og leiksmiðjur: Tillögur að námskeiðum í leikhússporti, sviðsslagsmálum og ástum á sviði.
– Hanna þarf minjagripi.
Júlíus Júlíusson talaði fyrir tillögum hóps 2.
– Nafn hátíðar: Eitthvað stutt og laggott, með undirtitli. Gott lógó. Leiklist 2005, Gúrkan 2005, Lálak 2005.
– Götuleikhús og uppákomur: Hátíðin verði betur kynnt bæjarbúum og í nágrannasveitarfélögum, gerð sýnilegri en síðast. Fyrirtæki dreifi til dæmis húfum og fái alla niður í bæ á ákveðnum tíma og allir hjálpast að við að setja met í einhverju. Samkeppni á milli hverfa, félaga, fyrirtækja eða íþróttafélaga. Fá athygli út á eitthvað skrítið. Samkeppni um eitthvað, til dæmis bestu búninga í búningasamkeppni á milli einhverra hópa innan bæjarins.
– Vilja hafa verðlaunaafhendingu, annars mætir hópur 2 ekki á hátíðina. Þau lögðu til að verðaun yrðu hagnýt, frekar en verðlaunagripir.
– Námskeið og smiðjur: Stutt tækninámskeið, leikhúsförðun, dans, sirkus, brúðuleikur, uppistand og námskeið í kynningarmálum. Einnig kom tillaga að hugarflugsfundi um fjáröflun leikfélaga.
– Lokahóf, á litlum hlýlegum stað, frjálslegt en fínt, hlaðborð, góð partýstemming. Óvissuferð, hugsanlega á bát? Öðruvísi en síðast. Hafa spennu í þessu.
– Ljósmyndasamkeppni, 10 bestu myndirnar sem teknar eru á hátíðinni sýndar á lokahófi.
Hrund Ólafsdóttir skýrði frá tillögum hóps 3.
– Mætti vera meira um götuleikhús til að vekja athygli á hátíðinni, gangan frá hótelinu niður í bæ vakti mikla athygli síðast. Mikið líf og litir, gera sem mest.
– Virkja bæjarbúa í gegnum leikskóla, leikjanámskeið og unglingavinnu til að taka þátt í götuleikhúsinu.
– Nafnið hátíðarinnar þarf að höfða til almennings: Lifandi leikhús 2005 (LL2005).
– Hafa stutta gagnrýnifundi helst styttri en síðast. Spurning um að hafa líka samantekt í lokin.
– Námskeið: Sviðsslagsmál, sminknámskeið fyrir leikarann, sömu námskeið alla morgna til þess að menn geti farið á þau öll ef menn vilja. Ekki framhaldsnámskeið.
– Lokahóf: Frekar alþýðlegt, menn mæti í næstbestu fötunum. Ekki of mikið prógramm hafa góða danshljómsveit og
verðlaunaafhendingu. Verðlaunaveiting yrði bara hvatning.
Hörður Sigurðarson og Guðrún Halla Jónsdóttir töluðu fyrir tillögum hóps 4.
– Nafn: Leikum núna
– Götuleikhús: tókst vel 2000 og vakti mikla athygli. Hópurinn mælti með því að opnunarhátíð yrði aftur í formi götuleikhúss.
– Verðlaun: minnihluti hópsins var andvígur verðlaunaveitingum, sumir hlutlausir, flestir meðmæltir.
– Rætt um síðustu hátíð. Rifjað upp það sem tókst vel og það sem tókst síður. Gagnrýni kom fram á að verðlaunaflokkum skyldi hafa verið bætt við eftir að hátíðin var hafin.
– Gagnrýni: strax eða daginn eftir? Jákvætt að margir mæti á gagnrýnifundi. Of mikið þó að taka öll verkin fyrir í einu. Tillaga hópsins var að haldnir skyldu tveir fundir og fjallað um helming sýninganna á hátíðinni á hvorum.
– Leiksmiðja- námskeið: aðsókn var dræm síðast. Athuga hvort einhverjir erlendu gestanna geta haldið námskeið. Var of margt í boði síðast? Fækka námskeiðum, hafa t.d. 2 x 2.
– Lokahóf: „Chill“ eða „Posh“? Frekar „Chill“. Mælum með Eistnesku aðferðinni.
Búin að prófa „Posh“. Næst er það „Chill“.
– Brjálaðar hugmyndir: senda auglýsingu til félaganna til að setja í leikskrár sýninga vetrarins til að auglýsa hátíðina. Lítil, feit og loðin tístudúkka verði minjagripur hátíðarinnar. Hafa Lárus í bleikum jakkafötum alla hátíðina. Senda 10 mínútna leikþátt (eða sögu) til allra hópa sem sýna á hátíðinni. Hverjum leikhóp væri ætlað að leikgera og sýna í hátíðaklúbbi.
Hrefna Friðriksdóttir skýrði frá tillögum hóps 5.
– Nafn: Leikum núna, leiklyst.
– Opnun hátíðarinnar verði sýnileg í formi götuleikhúss.
– Skiptar skoðanir voru innan hópsins um hvort veita ætti verðlaun þeim sem stæðu sig best en menn voru sammála um að ef verðlaunaafhending færi fram þá ætti að standa að henni af fagmennsku. Ef ein sýning stendur upp úr á öllum póstum, þá fær hún öll verðlaunin.
– Hátíðarklúbbur verði eingöngu fyrir hátíðargesti. Félögin verði með uppákomur í klúbbnum. Teatersport. Hugsanlega undankeppni, enda með liðakeppni.
– Gagnrýni, sem flestir taki þátt, einn eða 2 fundir þar sem fjallað verði um allar sýningarnar.
– Lokakvöld: gera grín hvert að öðru. Stjórn stígi á stokk og endursýni eftirminnileg atriði úr öllum sýningunum, hópar leiki hver annan. Svona atriði var á lokakvöldi leiklistarhátíðar í Eistlandi og var mjög skemmtilegt.
Lárus þakkaði hópunum fyrir góð störf og góða hugmyndavinnu og opnaði fyrir umræður:
– Einar Rafn: margar fínar hugmyndir. Spurning um að ræða ágreining um verðaunaafhendingu á hátíð.
– Gunnhildi Sigurðardóttur þótti hugmynd um að tengja bæjarbúa inn í götuleikhús í gegnum leikskóla, leikjanámskeið og vinnuskóla góð.
– Freyja Kristjánsdóttir lýst yfir ánægju með hugmynd um ljósmyndasamkeppni.
– Vilborg Valgarðsdóttir vakti máls á minjagripamálum. Þótti góð hugmynd að láta hanna fallegan grip sem hóparnir fengju til eignar. Slíkt hefði gjarnan verið gert á Norðurlandahátíðum og væri skemmtilegt að eiga.
– Guðrún Halla sagði frá því að hún vissi um 3 listamenn sem væru á Akureyri og í nágrenni og gætu hannað fallega gripi. M.a. væri einn sem ynni úr ull og annar gerði grímur.
– Lárus gerði stutta könnun á því hverjir væru með og á móti því hvort verðlaunaafhendingu á hátíðinni. Meirihluti fundarmanna reyndist vera hlynntur verðlaunaveitingu.
Lárus þakkaði aftur fyrir góða vinnu í hópunum og benti á að hægt væri að skrá sig sem starfsmann hátíðar strax og skila til skrifstofu.
Kaffihlé.
Lárus tók aftur til máls. Sagðist hafa verið skammaður í kaffinu fyrir að hafa ekki gefið mönnum tækifæri til að tjá sig um grunnskipulag hátíðarinnar. Hugmyndir handa fjáröflunar- og kynningarnefndum. Hann sagði ennfremur að menn gætu velt málunum fyrir sér og tekið hátíðina aftur upp undir liðnum önnur mál.
Hrefna: gott hefði verið að hver hópur hefði fengið starfssvið einnar nefndar til að ræða.
2. Námskeiðsáætlun skólanefndar
Gunnhildur Sigurðardóttir, rektor Leiklistarskóla Bandalagsins, talaði.
Skólinn mun starfa 11.-19. júní árið 2005. Gott að taka skóla og hátíð í röð. Skólanefnd hefur gert tilllögu og lagt fyrir stjórn. Kennd verða námskeiðin Leiklist 2, Leikstjórn 1 og Sérnámskeið fyrir leikara. Eftirspurn hefur verið mest eftir leikaranámskeiðum, þá sér í lagi sérnámskeiðum. Nefndin skoðaði námskeið undanfarinna ára og umsagnir um námskeið. Leitað var til Rúnars Guðbrandssonar. Ekki er búið að ræða hvernig námskeið hann kemur til með að halda. Opnar umræður þurfa jafnan að vera í gangi um skólann og framtíð hans almennt, tíma, staðsetningu, námskeið og kennara. Skólinn hefur verið í föstum skorðum. Spurning hvort mönnum þykir vanta nýjar hugmyndir. Hins vegar hefur núverandi form virkað vel. Hvað finnst fólki um inntökuskilyrði? Skólinn er að verða 10 ára, spurning um að halda upp á það með einhverjum hætti.
– Einar Rafn: sá sýnishorn af nokkrum námskeiðum úti í Noregi á dögunum og taldi upp nokkur þeirra: námskeið í einleik (uppistandi), hvernig skal losna við við sviðskrekk, að leika í tómi, framkvæmdastjórn leiksýninga, „Playback Theatre“ (fá almenning til að segja sögu og leika hana á meðan), leikritun, leiklist 1 og 2, Stanislavskí tækni, raddbeiting, smink, sagna-leikhús, kóreógrafía og dans, theatersport og útileikhús.
– Maríu Gunnarsdóttur þótti skólinn frábær en spurði hvort hann þyrfti að vera í 9 daga eða hvort hann mætti vera styttri þar sem þessi langa fjarvera að heiman hentar illa fjölskyldufólki?
– Gunnhildur: sagði þessa lengd hafa hentað vel, en vel mætti hafa fleiri og styttri námskeið. Sagðist hafa orðið vör við kvartanir frá fjölskyldufólki.
– Lárus: skólinn til sóma. Spurning til skólanefndar, hefur verið rætt um að halda fleiri styttri námskeið, í tenglsum við Bandalagsþing, haustfundi eða aðra viðburði. Honum þótti hafa vantað styttri námskeið, til dæmis í stjórnun leikfélaga, eins og stundum hefur verið á haustfundum. Væri vel þegið hjá mörgum félögum, þyrfti ekki að vera langt.
Mönnum þótti rétt að halda stjórnunarnámskeið reglulega.
Gunnhildur: varðandi styttri námskeið, ekki hefur náðst þátttaka.
Nokkuð var rætt um hvernig megi fá tæknimenn til að sækja námskeið.
– Einar Rafn: fyrir liggur að Húsabakkaskóli gæti lagst af. Hvert ætti þá að fara með skólann? Hann sagði haustfund vera ráðgefandi samkomu og mælti með því að menn tjáðu sínar skoðanir.
– Guðrún Halla: Húsabakki hefur ýmsa galla, sérstaklega aðgengið. Samkvæmt nýrri skýrslu þykir ekki borga sig að halda úti barnaskóla á Húsabakka. Einhverjir aðilar gætu fengið að taka yfir reksturinn leigulaust gegn viðhaldi. Fleiri staðir koma til greina. Skógaskóli og Reykjanes eru ekki lengur hótel. Eins spurning um Hafralækjarskóla.
Allir beðnir að hafa augun opin. Hvort sem hægt verði að halda skólann áfram að Húsabakka eða ekki, kannski rétt að athuga með aðgengi til hliðsjónar.
– Gunnhildur: námskeið myndu hækka í verði í dýrara húsnæði. Spurning um að nota 10 ára afmæli skólans sem stökkpall til að fá niðurgreiðslu frá menntamálaráðuneyti.
– Brynhildur Guðmundsdóttir: leist vel á hugmynd um framkvæmdastjórnunarnámskeið. Hrósaði námskeiði í búninga og gervagerð. Allir voru mjög ánægðir með það námskeið sem á því voru.
– Snorri: hefur verið á styttra námskeiði. Það var of stutt. Það þarf 9 daga.
Einar Rafn sagði frá því að nágrannalöndin væru einnig með starfandi sumarskóla, en við værum stærst í sniðum með slíkt, miðað við höfðatölu.
Nokkrar umræður spunnust um að það gagnaðist mörgum vel að fá ljósamenn að til að kenna mönnum að lýsa í því rými sem þeir hafa. Spurning um að ganga frá farandkennslu. Ljósamenn fái að hittast.
– Gunnar Björn Guðmundsson: þótti rétt að reyna að hafa tækninámskeið samhliða leiklistarnámskeiðum.
– Hrefna: sagði frá hugmynd um „Swiss army knife-námskeið“. Þ.e., samhliða námskeið í leik, leikstjórn og tæknivinnu. Hópar vinna bæði hver fyrir sig en fá einnig yfirsýn yfir heildarmyndina og innsýn í önnur svið. Endar á mörgum litlum sýningum sem hafa verið unnar í gegnum ferlið.
– Gunnhildi þótti þetta góð hugmynd fyrir 10 ára afmælið.
– Lárus: þótti Húsabakkaskóli of lítill og þótti sýnt að fleiri kæmu á námskeið ef boðið væri upp á fleiri. Þótti smæðin hafa staðið þróun skólans fyrir þrifum.
– Júlíus: benti á að með yfir 60 eða 70 manns næðist ekki sama hópstemming. Skólastýrur réðu sennilega ekki við fleiri gemlinga í einu. Þótti Húsabakki góður staður fyrir utan aðgengið.
– Hrund Ólafsdóttir: var sammála Júlíusi. Þótti nógur tími til að prófa. Ef námskeið eru of dýr þá fer fólk ekki á þau.
– Guðrún Halla: blés á að fleiri þátttakendur þýddu minni hóptengsl. Hún taldi skólann vera í vondum málum sem
opinbert apparat með svo slæmt aðgengi. Ekki pláss fyrir „Swiss army-námskeið“ á Húsabakka. „Hugsum stórt og förum í Skógaskóla!“
5. Hverjir taka þátt í Margt Smátt?
Hörður skýrði frá:
Undirbúningsnefnd skipuðu Hörður Sigurðarson, Júlíus Júlíusson og Ármann Guðmundsson.
Valnefnd skoðaði innsend myndbönd. Í nefndinni voru Sigrún Valbergsdóttir, Oddur Bjarni Þorkelsson og Felix Bergsson.
Niðurstaða valnefndar:
Valnefndin skoðaði 17 þætti – alla af myndbandi.
Þættirnir voru mjög misjafnlega langt komnir í æfingu. Sumir voru fullbúnir og höfðu þegar verið sýndir áhorfendum en aðrir voru nánast á frumstigi æfingatímabils. Valnefndin tók fullt tillit til þessa .
Við val á verkum var fyrst og fremst horft á verkið sjálft, textann og innihaldið og hversu vel efnið gengur upp í því formi sem stuttverkið er og hversu vel höfundurinn hefur þetta form á valdi sínu.
Þar sem verk voru styttra á veg komin í æfingu var litið til möguleika verksins til þróunar.
Þar sem verk voru lengra komin í vinnslu eða fullæfð var horft á úrvinnslu: leik og sviðslausnir.
Önnur sjónarmið voru ekki höfð.
Valnefndin var samdóma í vali sínu á verkum inn á hátíðina. Eftirfarandi þættir voru valdir til þátttöku á stuttverkahátíðinni:
Leikfélag Hafnarfjarðar – Dauðinn drepur á dyr
Hugleikur – Án mín
Hugleikur – Af hverju láta fuglarnir svona?
Hugleikur – Á uppleið
Freyvangsleikhúsið – Hlýðni – Óhlýðni
Leikfélag Hafnarfjarðar og Leikfélag Mosfellssveitar – Pörunardans hnífakastarans og skeggjuðu konunnar
Leikfélag Seyðisfjarðar – Dagur myrkurs
Halaleikhópurinn – Portrett
Leikfélag Mosfellssveitar – Forvitni
Leikfélag Hafnarfjarðar – Kjallarabörnin
Leikfélag Kópavogs – Hinir gullnu bogar hugrekkisins
Einar Rafn gerði skoðanakönnun meðal fundarmanna og í ljós kom að velflestir sem á fundinum voru sáu hátíðina í fyrra. Hann sagði stuttverkaframleiðsluna vera vaxtabrodd í starfinu.
4. Úthlutunarreglur: Breytingar frá stjórnarfundi í sumar.
Hörður Sigurðarson kynnti.
Gerðar til að einfalda vinnu stjórnar. Búið að breyta reglunum 2 ár í röð.
Allt skal vera sent inn á myndbandi.
B. liður felldur út (í þeim tilgangi að styrkja eingöngu leiklist.) Félög sæki í staðinn um fyrir leikið efni eingöngu.
Lengdarviðmið, full sýning úr 100 mínútum í 90.
Álag fyrir frumsamda tónlist fellt út. Í staðinn má sækja um álag fyrir frumsamda tónlist undir liðnum Sérstakt frumkvæði. Fólk þarf áfram að sækja sérstaklega um álag fyrir sérstakt frumkvæði.
Einar Rafn: bannað að fara í kvikmyndatökuleik með upptökur á leikritum, allt sviðið sé sýnilegt á allri upptökunni.
Hörður: upptökum sé skilað á formunum: vhs, dvd eða geisladiskum með algengu formati.
Spurt var hvort skila mætti inn gögnum með styrkumsóknum um leið og upptökum. Svar, ekkert því til fyrirstöðu.
Einnig var spurt um tímamörk á skilum upptöku og af hverju væri bannað að „súmma“.
– Hrefna: sagðist efnislega vera sammála breytingum á úthlutunarreglum en spurði hvort stjórnin hefði leyfi til að taka þessa ákvörðun. Taldi hana þurfa að fara fyrir aðalfund. Spurning hvort úthlutunarreglur þyrftu að fara til menntamálaráðuneytis. Næsti aðalfundur geti samþykkt breytingarnar á yfirstandandi leikári.
– Hörður: sagði ekkert vera í lögum Bandalagsins sem bannaði að stjórn tæki þessa ákvörðun.
– Vilborg sagði allar breytingar vera tilkynntar til ráðuneytis og sagði ráðuneytið annars vera almennt ánægt með störf Bandalagsins við úthlutun.
– Lárus mundi ekki til þess að breytingar á úthlutunarreglum hefðu verið lagðar fyrir aðalfund.
Einar Rafn: frestaði fundi til 10 næsta morguns. Allir boðaðir í skoðunarferð til að athuga aðstöðu fyrir leiklistarhátíð.
Fundi framhaldið kl. 10.00, 10. október.
Guðrún Halla Jónsdóttir stýrði fundi. Opnað fyrir umræður um nýjar úthlutunarreglur.
Hvernig koma þessar nýju reglur við félögin?
– Lárus: spurning um að leggja breytingar fyrir aðalfund.
– Ármann Guðmundsson tjáði fundinum að fæstir formanna hefðu kynnt sér nýju reglurnar, allavega þeir sem hann hefði talað við.
– Guðrún Halla: fljótlega verður farið að vinna eftir reglunum. Spurði hvort þetta breytti þetta einhverju fyrir félögin.
– Brynhildur: götuleikhús verður ekki á Fáskrúðsfirði næsta sumar ef ekki fæst lengur styrkur fyrir það.
– Guðrún Halla: sagði henni að sækja um fyrir það áfram, en sem leiksýningu.
– Hörður sagði Fáskrúðsfirðinga standa framarlega í gerð götuleikhúss og ekkert því til fyrirstöðu að sækja um styrk sem um venjulega leiksýningu væri að ræða. Þar sem um samsettar dagskrár hafi verið að ræða hafi leiklist kannski numið helmingi sýningartíma. Styrkurinn var 50 prósent en fer í 100 prósent fyrir leikin atriði svo það á ekki að breyta miklu, peningalega séð.
Spurning kom úr sal varðandi Þorrablót. Spurt hvort einhverjir hafi sótt um fyrir svoleiðis.
– Hörður: sama í hvaða umhverfi leiklistin er, svo framarlega sem félag innan Bandalagsins stendur fyrir henni.
– Guðrún Halla áréttaði að hlutverk sjóðsins sem Bandalagið fær frá menntamálaráðuneyti væri ekki að styrkja annað en leiklist, potturinn hafi ekki stækkað.
– Hörður: aðalfundur æðsta vald, getur ákveðið hvað sem er, um hvað sem er, úthlutunarreglur sem annað. Stjórn setur reglur.
– Guðrún Halla: úthlutun Bandalagsins eru tillögur til ráðuneytis.
3. Bandalags-Gríman
Vilborg kynnti tillögur frá skrifstofu um breytt vinnulag á innsendingu myndbanda, m.a. með það fyrir augum að öll stjórn og varastjórn sjái allar sýningar og hugsanlega væri hægt að velja bestu sýningar og leikara hvert vor. Stjórn og varastjórn virkaði þá sem eins konar akademía Bandalagsins á þessu fyrsta tilraunaári. Hún rakti einnig stofnun og verklag Grímunnar og umræður innan stjórnar Bandalagsins um hvort Bandalagið ætti að taka þátt í henni. Velti upp spurningunni um hvar/hvenær ætti að afhenda verðlaun í Bandalags-Grímunni.
– Gunnhildur spurði hvernig því væri tekið innan Leiklistarsambandsins að Bandalagið væri með?
– Vilborg taldi það vera sjálfsagt mál þar sem Bandalagið væri fullgildur aðili í Leiklistarsambandinu með mann í stjórn.
– Gunnar Björn spurði hvort ekki væri eðlilegt að Bandalagsfélögin væru þá með í öllum verðlaunaflokkum?
– Vilborg taldi það vera erfitt í framkvæmd. Nú þegar væru sér akademíur fyrir suma flokka, eins og útvarpsleikrit, og þyrftu í rauninni að vera fleiri, þar sem akademíur starfa kauplaust og komast alls ekki yfir að sjá allt sem í boði er eins og staðan er í dag.
– Hörður vildi að menn gerðu skýran greinarmun á Prufu-Grímunni og Alvöru Grímunni. Hið fyrra þarf ekki að þýða þátttöku í því síðara. Þótti rétt að hafa verðlaunaafhendinguna á aðalfundi. Myndi auka mætingu. Hverjir ættu að skipa akademíu, ef framhald yrði á?
– Ármanni þótti sýnt að erfitt yrði að velja. Fjölga þyrfi í akademíunni og stakk upp á að aðrir fulltrúar en stjórn róteruðu á milli leikfélaga.
– Lárus áréttaði aftur að prufu-Gríman ekki það sama og alvöru-Gríman. Þótti sýnt að vinnulag stjórnar við úthlutun myndi lagast mjög mikið.
– Hrefnu þótti erfitt að halda þessu aðskildu. Spurði hvort verið væri að búa til enn meiri aðskilnað á milli áhuga- og atvinnuleikhúss. Ef við gerum prufu þá erum við að máta Grímuformið. Spurning um að hafa framhaldsskólaleikfélög með?
– Gunnar Björn sagðist vera á móti verðlaunum, almennt. Leiklist sé ekki keppnisgrein. Heldur að það skapi ríg á milli félaga, sem hugsanlega sé fyrir.
– Guðrún Halla: varðandi framhaldsskólasýningar. Erfitt í framkvæmd. Höfum ekkert vald til að ætla þeim að senda spólur til akademíunnar þar sem þau eru ekki í Bandalaginu. Sagðist líka hafa verið á móti hugmyndinni um verðlaunaveitingu en sagðist hafa keypt hugmyndina vegna mikilvægis þess að öll stjórnin sæi allar sýningar. Einnig væri verið að safna myndböndum í safn hjá Bandalaginu.
– Hörður. Þjóðleikhússýningin var vítamínsprauta, skapaði engan ríg. Sagðist ekkert sjá því til fyrirstöðu að bjóða framhaldsskólum að vera með, en hins vegar væri ekki hægt að skylda þá til þess. Sagðist ekki skilja hræðslu við að verðlauna þá sem gera vel. Leiklist er ekki keppnisgrein og verður ekki með verðlaunaveitingum.
– Júlíus: sagði gallann við Þjóðleikhússýninguna vera að þangað kæmust aðeins þeir sem sæktu um. Kostnaður væri mismikill fyrir leikfélög eftir landshlutum. Spurði hvers vegna menntaskólar ættu að vera með. Þeir væru ekki í Bandalaginu.
– Snorri: sagðist vera á móti verðlaununum, ekki vinnureglunum. Þótti ekki rétt að hengja það endilega saman.
– Ármann sagðist ekki sjá að verið væri að keppa. Verðlaun skapi umtal og metnað. Sagðist vera á móti kommúnismanum í þessari umræðu. Taldi að framhaldsskólaleikfélögum þætti spennandi og gaman að taka þátt í slíku og sagði sjálfsagt að bjóða öllum áhugaleiksýningum að vera með. Hvert leikfélag yrði að samþykkja að verk séu til á Bandalaginu og honum þótti sýnt að ekki væri hægt að lána leikrit vegna höfundar-réttarmála.
– Vilborg taldi rétt að ekki væri hægt að safna verkum nema með samþykki allra aðila. Taldi framhaldsskólafélög þurfa að vera aðilega að Bandalaginu til að taka þátt. Hratt gegnumstreymi fólks í framhaldsskólafélögum gerði slíkt erfitt. Er eðlilegt að þau séu aðilar? Það væri hægt að taka þau inn ef til kæmu meiri peningar. Annars hefði ekki verið mikill áhugi fyrir því hjá þeim sjálfum.
– Lárusi þótti umræðan vera farin út um víðan völl. Tók saman umræðupunkta:
– Hvort verðlaunaveiting væri til frambúðar.
– Þátttaka í Grímunni? (Allir flokkar eða einn?)
– Framhaldsskólafélög með í Bandalags-Grímunni?
– Framhaldsskólar í Bandalagið?
– Höfundarréttarmál við söfnun upptaka af uppsetningum?
– Hefur stjórn umboð til að gera þessa tilraun? (Kannski er þetta ekki hægt. Kannski kæmu fram 10 mismunandi skoðanir á bestu sýningu.)
Stjórn gæti blásið þetta af ef þetta gengur ekki. Umræða um tæknileg smáatriði og framhald ótímabær. Bæði með framhaldsskólana og Grímuna. Finnst ekki hægt að undanskilja þau félög. Honum þótti t.d. óhæft að höfundar sem skrifi fyrir áhugaleikhús taki ekki þátt í flokknum leikskáld ársins. (En það væri mál Leikskáldafélgsins.) Ef framhaldsskólarnir hafa áhuga væri rétt að hafa þá með. Spurning hvort menn gætu farið fram á að vera undanskildir.
– Hrefnu þótti „deildatal“ vera út í hött og spurði af hverju bara einhverjir í einhverri deild væri með. Öll leiklist ætti að vera með. Megum ekki skilja útundan ef við ætlum að sameina þá sem eru útundan. Ekki aumingjakeppni. Af hverju ekki að stofna vídeóleigu?
– Guðrún Lára Pálmadóttir taldi að menn ættu bara að halda sig við Bandalagið til að byrja með. Framhaldsskólaleikfélögin ættu að fá að sækja um aðild. Spurði af hverju þau félög væru ekki aðilar að BÍL?
Svar: framhaldsskólafélög tengjast stofnunum og eru ekki öllum opin. Það samræmist ekki lögum Bandalagsins.
Guðrún Lára áfram: fannst Bandalaginu ekki skylt að hirða upp alla hina. Hafa verðlaunaafhendinguna bara fyrir Bandalagið.
– Hörður taldi vera búið að veita Bandalags-Grímuna 2 ár í röð með Tréhausnum. Gott framtak. Góð reynsla. Hafði einhver eitthvað við það að athuga? Í þetta sinn væru bara fleiri í dómnefndinni.
– Snorri: þótti sanngjarnara að hafa Bandalagsgrímuna en Þjóðleikhússsýninguna. Þetta væri sanngjarnari leið þar sem allir sætu við sama borð. Sagðist vera á móti keppni en að þetta væri kannski spurning um klapp á bakið. Við gætum haldið áfram með hina flokkana bara fyrir okkur. Hann spurði einnig af hverju Þorrablót væru ekki með ef framhaldsskólarnir væru það?
– Gunnar Björn spurði hvort þetta ætti að vera eða ekki. (Ef það er keppni þá ætlar hann að vera með.) Fyrst að ákveða hvort, síðan ræða útfærslur.
– Ragna: ef skólaleikfélögin eru með eru þau að fá tvenna styrki frá menntamálaráðuneyti.
– Lilja Kristinsdóttir: allt í lagi að hafa verðlaun, þetta er samt ekki keppni.
– Guðrún Halla: spurði hvort stjórnin hefði leyfi fundarins til að gera þessa tilraun?
Fundurinn veitti það umboð með atkvæðagreiðslu.
6. Önnur mál.
– Hrund: Gerði athugasemdir við val á Margt smátt og spurði hvort forsendur valnefndar hefðu verið þær sömu og gengið var út frá í upphafi. Henni þótti sýnt að erfitt væri að bera saman sýningar sem væru annars vegar á frumstigi æfinga og hins vegar fullbúnar sýningar. Hún spurði hvernig dómnefnd væri valin og hvort hún fengi laun fyrir þessa vinnu? Spurning hvort í nefndinni ætti aðeins að vera fólk sem er ótengt Bandalaginu. Leikstjóri/dramatúrgur/leikskáld. Nauðsynlegt að fá ítarlega gagnrýni á það sem menn eru að gera. Gott ef menn taka henni með opnum huga. Hvað var að sýningum sem ekki náðu inn? Henni fannst þurfa að koma fram rökstuðningur fyrir valinu.
– Hörður: Fagnaði umræðunni um valið. Sagði valið náttúrulega alltaf vera huglægt mat dómnefndar. Nefndinni voru settar skorður, m.a. varðandi gæðamat, eftir gagnrýni sem fram kom á hátíðina í fyrra. Dómnefnd var valin af undirbúningsnefnd sem gerði tillögur til stjórnar, sem samþykkti þær. Sagði erfitt að finna einstaklinga í leiklistarheiminum sem ekki þekkja einhvern innan hreyfingarinnar. Nefndinni var ekki sagt að setja fram rökstuðning.
Las aftur greinargerð dómnefndar.
Ekki var farið fram á að þættir væru fullæfðir. Hörður vissi ekki hvernig valið fór fram í smáatriðum. Nefndin fékk ekki greitt fyrir störf sín. Aldrei var farið fram á að sýningar væru fullbúnar. Hann sagðist ekki geta svarað til um rökstuðning fyrir hönd dómnefndar.
– Hrund þótti vanta skýrari forsendur til framtíðar.
– Ármann sagði frá verkefni sem þegar væri farið í gang. Verið er að koma á koppinn rafrænum gagnabanka sem inniheldur skár yfir eigur leikfélaga, búninga, tæki, leikmuni og þess háttar. Ármann og maður hjá Leikfélagi Reyðarfjarðar eru að vinna í málinu fyrir hönd Leikfélags Reyðarfjarðar. Stefnan er sú að gögnin verði aðgengileg fyrir önnur leikfélög, á netinu. Félög geta skráð eigur sínar en eru ekki skyldug til að lána neitt, bara hægt að sjá hvað er til. Vinnan farin í gang og reiknað er með að hægt verði að birta fyrstu gögnin upp úr áramótum. Nokkur vinna er að koma þessu af stað, en þetta sparar mikla vinnu í framtíðinni.
– Guðrún Lára ræddi meira um Margt smátt. Sagðist vita að þetta yrði alltaf huglægt mat, en þótti rétt að hafa reglurnar skýrari fyrirfram. Rökstuðningurinn þótti henni loðinn. Greinar-gerð dómnefndar hljómaði eins og gerðar væru meiri kröfur til fullbúinna sýninga heldur en sýninga á frumstigi. Vill að dómnefnd fái greitt fyrir vinnu sína og vinni af fagmennsku.
– Hörður endurtók að nefndin hefði unnið eftir þeim forsendum sem henni hafi verið gefnar. Val nefndarinnar hlýtur að vera huglægt. Skoðanir eins margar og fólk. Það sem er að er þessi loðni texti sem kemur frá valnefnd. Hún hafi að öðru leyti unnið sína vinnu vel.
– Hrefna sagði að það ætti að læra af reynslunni við undirbúning hátíðar. Ekki hægt að skilja valið öðruvísi en svo að sýningar sem ekki voru valdar hafi verið ósýningarhæfar. Menn vilja heyra rökstuðning. Hefði þurft að opna umræður og hafa talsmann dómnefndar á staðnum.
– Hrund vildi taka það fram að hún væri ekki að að gera lítið úr starfi valnefndar.
– Lárus: Leiklistarhátíð. 3 nefndir þurfa að fara í gang núna eftir haustfund. Vill fá hugmyndir sem geta nýst þessum nefndum í tölvupósti. Vill vita hvort menn hafa áhuga á því að starfa í þessum nefndum, eða vita af einhverjum öðrum. Þakkar fyrir gott innlegg í gær. Vildi bæta þessu við.
Vilborg minnti á skráningarblað vegna hátíðarinnar.
Guðrún Halla þakkaði góðan fund. Minnir menn á ferðavænar sýningar, allir ætla að halda hátíðina saman. Vonandi hafa allir áhuga.
Fundi slitið