Í dag, mánudaginn 24. mars kl. 16-18 verður opnun sýningar í forsal Borgarleikhússins þar sem fjórtán grafískir hönnuðir sýna sína eigin útgáfu af plakati fyrir leikritið Furðulegt háttalag hunds um nótt sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í mars. Fjórtán listamenn voru valdir og fengu þeir bókina Furðulegt háttalag hunds um nótt til að lesa og búa til sína útgáfu af plakati fyrir sýninguna. Sýningin er samstarfsverkefni Félags íslenskra teiknara (FÍT) og Borgarleikhússins. Sýningarstjóri er Fanney Sizemore.

Saga verksins;  Christopher er fimmtán ára stærðfræðiséní. Þegar hundur nágrannans finnst dauður einn morguninn ákveður hann að komast að því hvað býr að baki. Í rannsókninni kemst Christopher á snoðir um dularfull bréf sem tengjast fjölskyldu hans. Við tekur hættuför til borgarinnar sem hefur í för með sér óvæntar afleiðingar og umturnar lífi hans svo um munar. Við fylgjumst með því hvernig einstökum dreng reiðir af í heimi fullorðna fólksins, sjáum spegilmynd hins venjulega í augum hins óvenjulega. Verkið er í senn spennandi morðsaga og þroskasaga ungs drengs á jaðri samfélags – sérstakt, hlýlegt og fyndið og lætur engan ósnortinn.

Sýningin verður opin frá 25. til 30. mars frá kl. 12:00—17:00.

Hönnuðirnir sem taka þátt eru:
 Alli Metall, Bobby Breiðholt, Bjadddni, Fanney Sizemore, Friðrik Svanur Sigurðarson, Helga Valdís Árnadóttir, Helgi Páll Einarsson, Inga María, Jónas Valtýsson og Erla María, Ragnar Freyr, Sig Vicious, Sunna Ben, Sönke Holz og Tobba Ólafsdóttir.