Breytingar á stjórn og lögum Bandalagsins

ImageÁ aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldin var í Félagsheimili Seltjarnarness dagana 6.-7. maí sl. urðu þær breytingar á stjórn Bandalagsins að Ingólfur Þórsson (Freyvangsleikhúsinu) og Þorgeir Tryggvason (Hugleik) komu inn í aðalstjórn í stað Harðar Sigurðarsonar (Leikfélagi Kópavogs) og Júlíusar Júlíussonar (Leikfélagi Dalvíkur) sem hvorugur gáfu kost á sér til endurkjörs. Einnig var Lárus Vilhjálmsson (Leikfélagi Hafnarfjarðar) endurkjörinn til tveggja ára og situr áfram sem varaformaður. Auk þeirra sitja nú í aðalstjórn Guðrún Halla Jónsdóttir formaður (Freyvangsleikhúsinu) og Þórvör Embla Guðmundsdóttir (Umf. Reykdæla) ritari.

ImageImageImage

Í varastjórn voru Ármann Guðmundsson (Hugleik) og Margrét Tryggvadóttir (Leikfélagi Rangæinga) endurkjörin og Guðfinna Gunnarsdóttir (Leikfélagi Selfoss) kosin til eins árs í stað Ingimars Davíðs Björnssonar sem sagði sig úr varastjórn þar sem hann dvelur erlendis. Auk þeirra sitja Ólöf Þórðardóttir (Leikfélagi Mosfellssveitar) og Hrund Ólafsdóttir (Leikfélaginu Sýni) í varastjórn.

Breytingar voru gerðar á lögum Bandalagsins þannig að ákvæði í 6. gr. laganna um að aðalstjórnarmenn hefðu eitt atkvæði hver á aðalfundum var fellt út. Framvegis hafa því einungis leikfélögin atkvæði, eitt atkvæði á félag.

Tvö félög sóttu um inngöngu í Bandalagið, Leikfélagið Baldur, Bíldudal og Leikklúbburinn Krafla, Hrísey og voru þau samþykkt. Þrjú félög sögðu sig úr Bandalaginu, Leikfélagið Ofleikur í Reykjavík, Leikfélagið KEX í Osló og Ultima Thule í Danmörku.

Bjarni Guðmarsson sagnfræðingur hefur nánast lokið ritun sögu Bandalagsins frá 1950-2000 og vinnur nú að undirbúningi hennar fyrir prentun.

Image Skipt var um þjónustuaðila á Leiklistarvefnum í byrjun leikárs. Heimsóknum á vefinn fækkaði talsvert í haust miðað við undanfarin ár en hefur nú náð fyrri fjölda. Á áætlun er að hleypa meira lífi í vefinn, t.d. með nýrri stuttverkakeppni sem kynnt verður nánar á næstunni. Hörður Sigurðarson heldur áfram sem Lénsherra vefjarins.

Image Leiklistarskóli Bandalagsins er í föstum skorðum en eftir skólann í júní í sumar láta þær Gunnhildur Sigðurðardóttir og Sigríður Karlsdóttir af störfum sem skólastýrur eftir 10 ára farsælt starf. Í tilefni af 10. starfsári skólans eru allir fyrrverandi nemendur boðnir velkomnir á lokakvöldverð skólans að Húsabakka þann 17. júní nk. Nokkrar umræður um hvort Húsabakkaskóli sé nægilega hentugt húsnæði fyrir starfsemi skólans, m.a. vegna slæms aðgengis.

Umræður á fundinum voru að mestu á hefðbundnum nótum en tvö ný mál voru lögð fyrir fundinn. Annars vegar hvort fara ætti út í að athuga kosti og galla þess að gera leikritasafn Bandalagsins að fullgildu safni skv. safnalögum og hins vegar hvort fara ætti í viðræður við Þjóðleikhúsið um einhverskonar samstarf um að Bandalagið taki við umsjón búningasafns Þjóðleikhússins. Ákveðið var að bæði málin verði skoðuð nánar og nefndir stofnaðar um þau.

Image Gagnrýndendur stuttverkahátíðarinnar Margt smátt, Þorsteinn Backmann og Þorvaldur Þorsteinsson, tilnefndu sýningarnar Í öruggum heimi og Hannyrðir frá Hugleik og Geirþrúður svarar fyrir sig frá Leikfélagi Selfoss sem bestu sýningar hátíðarinnar sem fram fór í Borgarleikhúsinu 5. maí. Þeir völdu svo Í öruggum heimi sem bestu sýninguna.

Image Þær Tinna Gunnlaugsdóttir og Hlin Agnarsdóttir frá Þjóðleikhúsinu komu svo og tilkynntu um sigurvegarann í samkeppninni um Athyglisverðustu áhugasýningu ársins, en það var Þuríður og Kambsránið í uppfærslu Leikfélags Selfoss.