Í október sl. kom danskt vina leikfélag, Bagsværd Amatør Scene í heimsókn til Leikfélags Húsavíkur. Bagsværd Amatør Scene og Leikfélag Húsavíkur hafa verið vinaleikfélög til margra ára og heimsótt hvort annað í gegnum árin. Í ár kom BAS með sýninguna Jøklen Brænder sem byggir á íslenskri þjóðsögu en handritið skrifaði Grete Thorulf. Anne Bille leikstýrði sýningunni, en hún er meðlimur í Bagsværd Amatør Scene.
Danirnir komu til Húsavíkur á laugardegi og strax á sunnudeginum var hafist handa við að koma sér fyrir í Hvalasafninu, en Samkomuhúsið okkar á Húsavík var upptekið vegna æfinga leikfélagsins á Íslansklukku Halldórs Laxness. Og reyndist Hvalasafnið einkar gott leikhús. Margar hendur unnu auðvelt verk, allir hjálpuðust að við að koma upp leikmynd og ljósum í þessu annars litla rými, það tókst og sýningarnar urðu tvær.
Sýningin var afar vel gerð hjá Dönunum. Leikritið byggir eins og áður sagði á íslenskri þjóðsögu og fjallar um Sigríði Eyjafjallasól og hvernig hún er neydd til að giftast Kára, en hann og hans fjölskylda voru hneppt í álög. Þau urðu afar ljótar manneskjur, bæði í útliti og persónuleika. Eins og allar góðar þjóðsögur þá endar þetta allt vel. Sigríður og Kári giftast, Sigríður er hans þriðja eiginkona, en hinar tvær drap hann. Og á brúðkaupsnóttina svarar hún spurningum hans á þá leið að hann og fjölskylda hans losna úr álögunum og þau Sigríður og Kári verða hamingjusöm til æviloka.
Já þetta var flott leikhús. Leikarar stóðu sig allir með stakri prýði og töluðu eins skýrt og Dönum er unnt. Ljós og hljóð leika stórt hlutverk í sýningunni og tókst það afar vel þrátt fyrir lítið rými og ólíkt því sem þau áttu að venjast heiman frá sér. Einnig var talsvert um tónlist í sýningunni, hún var vel samin af einum félaga í leikfélaginu, Lars Thomsen.
Heimsóknin tókst í alla staði afar vel og rifjuðu gamlir félagar upp gömul kynni og þeir nýju eignuðust nýja vini. Vonandi helst þetta samband áfram um ókomin ár.