Við leggjum upp í dularfullt ferðalag til Mið – Austurlanda, allt til hinnar fornu borgar Bagdad, inn í heillandi heim, sem býr yfir ríkulegum menningarverðmætum. Við ferðumst með Aladdín á töfrateppinu til hinnar fornu Babýlóníu. Leikmyndin er einnig stórbrotin og mikil völundarsmíð. Leikið er á 6 senum og er ásýnd sýningarinnar ægifögur.
Bernd hefur verið að safna að sér efni í þessa sýningu allt frá því að Brúðuheimar fóru í leikferð til Jerúsalem sumarið 2011 og leitaði Bernd víða fanga. „Ég hef aldrei orðið jafn heillaður, auðmjúkur og orðið fyrir jafnmiklum áhrifum, þar sem ég ýmist táraðist af gleði eða sorg, eins og í undirbúningsvinnu minni fyrir sýninguna. Ég leitaði fanga víða til að leggja mig eftir að skilja betur menningu, arkitektúr og tónlist Mið-Austurlanda. Eitthvað töfrandi gerist þegar við förum að þekkja og skilja, það sem við áður álitum skrítið og öðruvísi. Við hræðumst og dæmum auðveldlega það sem við ekki þekkjum, en hjartað opnast hratt upp á gátt þegar við fáum tækifæri á að hlusta í einlægni á hjartslátt okkar meðbræðra.“
Handrit, tónlist, leikmynd, brúðugerð og flutningur: Bernd Ogrodnik
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson