Leikdeild Skallagríms sýnir um þessar mundir gamanleikinn Barið í brestina eftir Guðmund Ólafsson. Leikstjóri Gunnar Björn Guðmundsson. Sýnt er í Lyngbrekku og eru síðustu sýningar dagana 25. 26. og 27. mars og aukasýning 4. apríl.

Leikritið gerist á sambyggðri heilsugæslustöð og elliheimili á einum degi, segir frá lífi fólksins sem þar býr og starfar og hvernig það leysir vandamál sem upp koma.

Vandamál eins og til dæmis óvænta heimsókn heilbrigðisráðherrans til að skoða magaspeglunartæki sem hún (ráðherrann er kvenmaður) útvegaði sérstaklega fjárveitingu til kaupanna á. Bæjarstjórinn notaði hins vegar peningana til þess að efla knattspyrnulið staðarins og keypti færeyskan leikmann. Honum er svo lýst að hann sé jafn breiður og hann er langur. Sennilega ferhyrningur. Það er því ekkert tæki til að sýna ráðherranum og tæpast hægt að hampa Færeyingnum í þess stað. Önnur smávægileg vafaatriði í rekstri heilsugæslunnar eru að eini læknirinn sem fékkst er rússnesk flóttakona af kyrrsettum togara, kokkurinn er sídrukkinn sóði sem reynir allar leiðir til að verða sér úti um ódýrt hráefni og má þá einu gilda hvort það er ætt eða óætt. Hann drýgir svo tekjurnar með því að leigja vistmönnum ellideildarinnar klámspólur að danskri fyrirmynd.

Sýnt er í Félagsheimilinu Lyngbrekku og hefjast sýningar kl. 20.30.

Miðaverð er 2.500.

Miðasala á midi.is og í síma 846-2293.