Leiksýningu Þjóðleikhússins á Baðstofunni hefur verið boðið á leikritatvíæringinn í Wiesbaden í Þýskalandi í sumar. Þar fer fram ein þekktasta leiklistarhátíð Evrópu, en hún er helguð nýjum leikritum. Baðstofan er þriðja leikrit Hugleiks Dagssonar en verkið var frumsýnt í leikstjórn Stefáns Jónssonar í Kassanum þann 9. febrúar sl.
Tvíæringur þessi er stærsta leiklistarhátíð Evrópu sem einvörðungu kynnir verk núlifandi leikritahöfunda en í ár mun hátíðin standa frá 12.- 22. júní. Aðstandendur hátíðarinnar ferðast vítt og breitt um Evrópu til þess að kynna sér fjölbreytt leikhúslíf landanna og má því gera ráð fyrir að á hátíðinni verði rjómi þess allra besta í evrópskri samtímaleikritun.
Hópurinn sem stendur að sýningunni Baðstofan er að stórum hluta sá sami og setti upp söngleikinn Leg í Þjóðleikhúsinu – sem hlaut tólf Grímutilnefningar á liðnu ári og hætti fyrir fullu húsi nú í haust og Forðist okkur sem sýnt var á vegum Nemendaleikhúss LHÍ og CommonNonsense í Borgarleikhúsinu. Í þetta sinn beinir hópurinn sjónum sínum að fortíð okkar Íslendinga en verkið gerist í kringum sautján hundruð og súrkál og þar skyggnast áhorfendur inn í myrkan en magnaðan heim, því í baðstofunni er ekki allt sem sýnist.
Hljóðheimur verksins er einnig afar sérstæður en heiðurinn af honum eiga leikmyndahönnuðurinn og myndlistarmaðurinn Ilmur Stefánsdóttir og félagar úr tríóinu Flís, ásamt hópnum. Hljóðfærin sem leikið er á í sýningunni eru öll sérstaklega gerð fyrir þetta verkefni og eiga uppruna sinn í gömlum verkfærum og áhöldum, þar er til að mynda leikið á bein og steina, rokk, vefstól og frumstætt orgel, auk þess sem strokkum og taðkvörn er líka breytt í hljóðfæri.
Leikstjóri sýningarinnar er Stefán Jónsson, leikmynd gerir Ilmur Stefánsdóttir, Þórunn Elísabet Sveinsdóttir gerir búninga og um lýsingu sér Egill Ingibergsson. Tónlist er í höndum hljómsveitarinnar Flís, en hana skipa þeir Davíð Þór Jónsson, Helgi Svavar Helgason og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson. Leikarar í sýningunni eru Brynhildur Guðjónsdóttir, Dóra Jóhannsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Valur Freyr Einarsson og Vignir Rafn Valþórsson, auk tónlistarmannanna úr Flís.