Handritasafn Bandalagsins hefur að undanförnu tekið hressilegan vaxtarkipp. Því hefur borist mikið af handritum að loknu leikári hjá aðildarfélögum Bandalagsins og stóru leikhúsunum en einnig hefur það fengið tvær handritagjafir þar sem talsvert hefur verið af leikritum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki ratað hingað fyrr. Handritasafn Bandalagsins hefur að undanförnu tekið hressilegan vaxtarkipp. Því hefur borist mikið af handritum að loknu leikári hjá aðildarfélögum Bandalagsins og stóru leikhúsunum en einnig hefur það fengið tvær handritagjafir þar sem talsvert hefur verið af leikritum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki ratað hingað fyrr.
Leikfélag Kópavogs afhenti Bandalaginu nú á dögunum nokkra kassa af handritum þar sem meðal annars var að finna handrit að verkum frá fyrstu árum félagsins en þá þurftu leikfélög ekki að skila inn handritum að uppsettum verkum til Bandalagsins.
Stefán Sturla Sigurjónsson leikari kom einnig færandi hendi eftir tiltekt í geymslu og afhenti Bandalaginu handritasafn sitt sem innihélt tæplega 30 handrit sem ekki voru til þar. Stefán Sturla hefur starfað mikið með sjálfstæðum leikhópum undanfarin 20 ár en það vill oft verða misbrestur á að handrit frá þeim skili sér hingað niður á Bandalag. Skrifstofa Bandalagsins þakkar bæði Leikfélagi Kópavogs og Stefáni Sturlu kærlega fyrir handritagjafirnar.
Eins og margir vita þá er Handritasafn Bandalagsins hið eina á landinu þar sem leikritum á íslensku er markvisst safnað, þau skráð og gerð aðgengileg almenningi. Markmið safnsins er að þar sé að finna öll leikrit á íslenskri tungu, hvort sem þau eru upphaflega rituð á íslensku eða þýdd og um þessar mundir telur safnið um 2.600 titla. Hægt er að ganga úr skugga um hvort leikrit er til í safninu undir liðnum „leikritasafn“ á hér á Leiklistarvefnum. Við hvetjum alla sem hafa undir höndum handrit sem ekki eru til hér til að koma til okkar eintaki, gjarnan í tölvutækuformi en einnig tökum við fegins hendi á móti ljósritum.
Skráning stendur nú yfir á nýjum handritum og er hægt að skoða hvaða handrit hafa bæst við safnið eftir því sem skráningu miðar áfram. Það má gera með því að fara í ítarlega leit á leitarvél leikritasafns Leiklistarvefsins og haka við „nýtt“.