Leikfélagið Sýnir æfir nú stíft fyrir frumsýningu á Mávinum eftir Rússann Anton Tjekhov. Frumsýnt verður þann 29. júlí næstkomandi við Elliðaár, en margir muna eftir uppsetningu leikfélagsins þar á Draumi á Jónsmessunótt fyrir þremur árum. Leikstjóri Mávsins er Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, Denni, sem leikstýrði Stútungasögu í Heiðmörk hjá félaginu fyrir tveimur árum. mafurinnhopur.jpgLeikfélagið Sýnir æfir nú stíft fyrir frumsýningu á Mávinum eftir Rússann Anton Tjekhov. Frumsýnt verður þann 29. júlí næstkomandi við Elliðaár, en margir muna eftir uppsetningu leikfélagsins þar á Draumi á Jónsmessunótt fyrir þremur árum. Leikstjóri Mávsins er Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, Denni, sem leikstýrði Stútungasögu í Heiðmörk hjá félaginu fyrir tveimur árum.

Denni segir það vera forréttindi að fá tækifæri til að spreyta sig á einu frægasta verki leiklistarsögunnar og segir að sig hafi lengi langað til að setja Mávinn upp. Hann vilji skoða verkið sem gamanleik, eins og Tjekhov kallar það sjálfur í undirtitli. Leikhópurinn hefur æft síðan 20. júní og hefur nálgast það sem hæfilega blöndu af tragedíu og kómík í leit sinni að kjarna verksins, sem kannski fjallar um hvað það er sterkt í manninum að halda að grasið sé alltaf grænna hinu megin.

Í helstu hlutverkum eru Júlía Hannam sem Arkadína, Halldór Magnússon sem Trígorín, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson sem Tréplev, Aldís G. Davíðsdóttir sem Nína og Rúnar Lund sem Sorin. Aðrir leikarar eru Gísli Björn Heimisson, Sigsteinn Sigurbergsson, Anna Bergljót Thorarensen, Dýrleif Jónsdóttir, Ármann Guðmundsson og Arnar Ingvarsson. Einnig munu bætast við nokkrir leikarar í aukahlutverkum þegar nær dregur frumsýningu.

Um tónlistina í sýningunni sér Snæbjörn Ragnarsson, Bibbi, sem hefur unnið með Hugleik og Leikfélagi Kópavogs við góðan orðstír. Bibbi semur alla tónlist og texta auk þess sem hann er með fimm manna hljómsveit á sínum vegum, hina sjúskuðu djasssveit á sveitasetri Sorins. Um búninga sér Kristín Gísladóttir.

Þrjár sýningar verða á verkinu í Elliðaárdalnum, laugardaginn 29. júlí, mánudaginn 31. júlí, fimmtudaginn 10. ágúst og auk þess verður verkið sýnt á Dalvík á Fiskideginum mikla þann 12. ágúst.