Alþjóðlega áhugaleikhúsráðið, IATA, stendur fyrir leiklistarhátíðum víða um heim á tveggja ára fresti. Sú næsta verður í Westouter í Belgíu árið 2015. Umsóknarfrestur til að fara með sýningu á hátíðina rann út 25. september og sóttu tvö leikfélög um. Stjórn Bandalagsins skipaði nefnd til að velja á milli sýninganna og skilaði hún af sér í gær.
Úrskurður hennar hljóðar svo:
Valnefnd vegna leiklistarhátíðar IATA í Westouter í Belgíu árið 2015 hefur komið saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu.Tvö leikfélög sóttu um með leiksýningu á hátíðina.
Annarsvegar Leikfélagið Hugleikur með Hina einkar hörmulegu óperu um grimman dauða Píramus og Þispu.
Höfundur texta: William Shakespeare.
Þýðandi; Helgi Hálfdánarson.
Tónlist: Þorgeir Tryggvason.
Leikstjórar voru Þorgeir Tryggvason ásamt leikhópnum.
Hinsvegar Leikfélagið Skagaleikflokurinn með Sagnakonuna móður Snorra.
Höfundar: Leikhópur og leikstjóri.
Leikstjóri: Jakob S. Jónsson.
Valnefnd gaf sér eftirfarandi forsendur:
1. Sýningin er innan tímamarka.
2. Sýningin fellur að þema hátíðarinnar.
3. Sýningin hentar erlendum áhorfendum. Með því er átt við að hún sé skiljanleg fólki sem ekki skilur málið, sjónræn og byggir ekki á textaskilningi að mestu leyti.
4. Sýningin er almennt séð góður fulltrúi íslenskrar áhugaleiklistar.
Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að mæla með Hinni einkar hörmulegu óperu um grimman dauða Píramus og Þispu sem framlagi Íslands á hátíðina.
Rök valnefndar eru þessi:
Báðar sýningar eru innan tímamarka.Hvorug fellur sérstaklega vel að þema hátíðarinnar og teljum við að valnefnd IATA þurfi að skera úr um hvort það setur þeirri sýningu sem við veljum stólinn fyrir dyrnar vegna þess.
Við teljum að Sagnakonan henti síður fyrir erlenda áhorfendur þar sem hún byggir mikið á textaskilningi, öll framrás er textadrifin og sýningin minna sjónræn. Þar hefur Píramus og Þispa vinninginn. Ekki bara er hún sjónrænni heldur er tónlist auðvitað alþjóðlegt tungumál auk þess sem ansi margir þekkja senuna/söguna.
Báðar sýningar standa ágætlega inni í þeim ramma sem þeim er skapaður og hvort á sína vegu ágæt dæmi um íslenskt áhugaleikhús.
Það að Píramus og Þispa er mun sjónrænni sýning með vísun í afar þekkt verk sem gefur möguleika á skilningi í alþjóðlegu samhengi með mikilli tónlist og hreyfngu vegur afar þungt í niðurstöðu valnefndar.
Gísli Björn Heimisson
Guðfinna Gunnarsdóttir
Hörður Sigurðarson