Þungarokkararnir í Skálmöld ætla aftur að henda leikmyndunum út af Stóra sviði Borgarleikhússins eins og í fyrra en þeir sýndu sex sýningar fyrir troðfullu húsi. Eins og þá rífa þeir göt á búninga leikarana og hækka í Marshall mögnurunum. Skálmöld og listafólk Borgarleikhússins taka höndum saman og magna upp norrænan seið með vænum skammti af þungarokki maríneruðum í leikhúsinu. Sagan er Baldur, sem Skálmöld rakti svo listilega á samnefndum diski sveitarinnar og gerði hálfa þjóðina að þungarokkurum.
Aðeins verða þrjár sýningar, dagana 27. september, 4. og 11. október.
Hljómsveitin Skálmöld hefur vakið mikla athygli og aðdáun fyrir plötur sínar, Baldur og Börn Loka sem sækja innblástur í þungarokk annars vegar og norrænar goðsögur hins vegar. Plöturnar mynda hvor um sig eina heild, lögin og textarnir eru samhangandi saga og textarnir allir kyrfilega ortir samkvæmt íslenskum bragarháttum. Hljómsveitin hélt útgáfutónleika í Háskólabíói við gríðarlega góðar undirtektir og sérstaka athygli vakti leikrænn og sjónrænn þáttur tónleikanna.
Höfundur og flytjendur: Björgvin Sigurðsson, Baldur Ragnarsson, Gunnar Ben, Jón Geir Jóhannsson, Snæbjörn Ragnarsson, Þráinn Árni Baldvinsson | Leikstjórn: Halldór Gylfason | Leikmynd & búningar: Móeiður Helgadóttir | Lýsing: Gísli Bergur Sigurðsson | Hljóð: Flexi | Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir | Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Hilmar Guðjónsson & Hildur Berglind Arndal.