Næsta frumsýning hjá Íslensku óperunni verður um miðjan október en þá fer á svið ein vinsælasta ópera allra tíma, Carmen eftir Georges Bizet. Óperan hefur ekki verið sviðsett hérlendis í tæpa þrjá áratugi. Margir af okkar fremstu óperusöngvurum fara með hlutverk í óperunni en einnig munu nokkrir kornungir söngvarar þreyta frumraun sína á íslensku óperusviði. Hljómsveitarstjóri verður Guðmundur Óli Gunnarsson, leikstjóri Jamie Hayes og leikmyndahöfundur Will Bowen en tveir þeir síðastnefndu voru ábyrgir fyrir hinni geysivinsælu og verðlaunuðu sýningu Íslensku óperunnar á La Bohème fyrir rúmu ári. Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsir sýninguna og búningahönnuður er Helga I. Stefánsdóttir.
Í titilhlutverkinu verður Hanna Dóra Sturludóttir, sem um árabil hefur sungið í þýskumælandi löndum við góðan orðstír en Sesselja Kristjánsdóttir, sem sungið hefur mörg óperuhlutverk hjá Íslensku óperunni, mun einnig syngja hlutverkið á nokkrum sýningum. Þeir Kolbeinn Jón Ketilsson og Garðar Thór Cortes skiptast á að syngja Don José en þess má geta að Kolbeinn hefur sungið þetta hlutverk oftar en nokkurt annað hlutverk á ferli sínum og mun hafa sungið það í einum sjö uppfærslum óperuhúsa víðsvegar um Evrópu. Með hlutverk nautabanans Escamillo fer Hrólfur Sæmundsson, sem hefur verið fastráðinn við óperuna í Aachen síðustu misseri, en hinn bráðefnilegi baritónsöngvari Kristján Jóhannesson mun einnig syngja hlutverkið. Hann er aðeins tvítugur að aldri og í þann mund að hefja framhaldsnám í Vínarborg. Með hlutverk Mikaelu, unnustu Don José, fer Hallveig Rúnarsdóttir en Þóra Einarsdóttir syngur einnig hlutverkið á nokkrum sýningum.
Bassasöngvararnir virtu og vinsælu, Bjarni Thór Kristinsson og Viðar Gunnarsson skipta á milli sín hlutverki Zuniga. Í hlutverkum vinkvenna Carmenar verða Lilja Guðmundsdóttir sem þreytir hér frumraun sína á vegum Íslensku óperunnar og Valgerður Guðnadóttir, sem hefur sungið nokkur óperuhlutverk hjá Óperunni en er ekki síður kunn fyrir frammistöðu sína í söngleikjum, m.a. Söngvaseið og Vesalingunum. Í smyglaragenginu verða í forsvari Snorri Wium og Ágúst Ólafsson en báðir hafa getið sér gott orð í sýningum Óperunnar á undanförnum árum. Loks má nefna enn einn nýliðann, Jóhann Kristinsson, sem syngur Morales.
Þrjátíu og sex manna Kór Íslensku óperunnar, barnakór og sextíu manna sinfóníuhljómsveit taka einnig þátt í sýningunni ásamt nokkrum dönsurum.
Frumsýningin verður 19. október og eru fyrirhugaðar sex sýningar. Miðasala hefst í byrjun ágúst í miðasölu Hörpu.