Sunnudaginn 6. desember kl. 15.00 höldum við afmælisveislu um allt land! Hér að neðan er textinn fyrir myndböndin. Sjá nákvæmar útskýringar neðar á síðunni.

Bræður og systur til austurs, vesturs, norðurs og suðurs!

Bandalag íslenskra leikfélaga hefur sameinað leiklistarstarf í byggðarlögum landsins síðan 1950. Undir regnhlíf Bandalagsins eru blómleg áhugaleikfélög sem starfa af listrænum metnaði og virðingu fyrir leiklistinni. Bandalagið þræðir saman hóp furðufugla og leiklistarunnenda úr öllum þjóðfélagsstigum. Við erum fjölskylda. Við erum Bandalagið.

Sameinuð stöndum vér með leikgleðina að vopni og nagandi sultaról sem fjárveitingar sveitarfélaganna hafasnarað okkur í en við látum ekki hugfallast. Ekkert mun knésetja okkur. Ekkert mun slökkva funheitan loga leikgleðinnar sem brennur í hjörtum okkar allra.

Bræður og systur í leikfélögum sem eru að vakna úr dvala, við erum þið. Bræður og systur í leikfélögum sem berjast í bökkum, við erum þið. Bræður og systur í leikfélögum bæði ungum og öldnum,við erum þið. Við erum Bandalagið og Bandalagið er við.

Tökum saman höndum á þessum tímamótum og sameinumst í herópi á 75 ára afmæli Bandalags íslenskra leikfélaga! Látum baráttusönginn okkar heyrast á hverju götuhorni,í hverju skuði og hverjum dal,í hverju bæjarfélagi og sveitarfélagi. Í öllum leikhúsum,í öllum landshlutum! Við erum sameinuð í leik og ástríðu að eilífu í Bandalagi.

Viðburðurinn er tvíþættur og fer svona fram:

  1. Með þessum pósti fylgir stuttur texti sem við hvetjum leikfélögin til þess að leika sér með og nota sem innblástur til sköpunar á örlitlu atriði. Atriðið getur verið hvað sem er, gjörningur, stuttverk, skets, rímur, rapp, ballett eða breikdans eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug. Það er leikfélögunum í sjálfsvald sett hvort þau fela einum fulltrúa sínum eða hóp að búa til atriði fyrir sína hönd. Leikfélögin taka svo upp myndbönd af atriðunum sínum og senda þau til bandalagsins (info@leiklist.is) fyrir 1. desember. Miðað er við að hvert myndband verði ekki nema um 1 – 3 mínútur.
  2. Leikfélögin halda afmælisveislu í húsakynnum sínum fyrir félaga sína þar sem þau sýna myndböndin. Stefnt er að því að sem flest leikfélög geri þetta á sama tíma, sunnudaginn 6. desember kl. 15.00. Myndböndin verða gerð aðgengileg til sýningar á sérstakri síðu fyrir þann tíma (nánari upplýsingar sendar þegar nær dregur). Ef þessi tímasetning hentar ekki fyrir einhver leikfélög þá velja þau sér annan tíma til að koma saman og horfa. Við hvetjum leikfélögin til þess að taka myndir/örstutt myndskeið úr veislunum sínum til að senda bandalaginu til að deila á sömu síðu. Við vonum að sem flest leikfélög sjái sér fært að taka þátt í þessum viðburði, hvort sem er með því að senda inn atriði eða bara hittast yfir aðventusnarli og horfa á.