Föstudaginn 7. maí sl. frumsýndi Leikfélag Seyðisfjarðar gamanleikinn Blúndur og blásýra eftir Joseph Kesselring í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar. Leikstjóri er Snorri Emilsson. Frumsýningin gekk þó ekki áfallalaust því rafmagnið fór af Seyðisfirði skömmu skömmu fyrir hlé. Til að hafa ofan af fyrir frumsýningargestum gengu systurnar Abby og Marta Brewster, sem leikritið snýst að miklu leyti um, um með „ylliberjavín“ og gáfu gestum en það kemur nokkuð við sögu í leikritinu. Eftir klukkustundar stopp hélt sýningin áfram þegar rafstöð var sett í gang og sýningunni lauk án frekari vandræða.

Leikritið fjallar eins og áður sagði um Systurnar Abby og Mörthu sem búa í ættarhúsinu ásamt frænda sem hefur ruglast í stríðinu. Þær hafa orð á sér fyrir að vera einstök gæðablóð. Svarti sauðurinn í fjölskyldunni kemur heim með miður göfug áform og ýmis konar misskilningur kemur upp því engan grunar að systurnar hafi myrt tólf manns á eitri og grafið í kjallaranum.

Önnur sýning var 10. maí en sú þriðja verður fimmtudaginn 20. maí og lokasýning föstudaginn 28. maí. Miðapantanir eru í síma 899-9428 og miðaverð er krónur 2.200 kr.  Allar sýningarnar hefjast klukkan 20.00.

{mos_fb_discuss:2}