Haldinn að Funalind 2 Kópavogi kl. 13.00.

1. Úthlutunarreglur

Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins, rifjaði upp umræðu frá síðastliðnum aðalfundi. Þá var ákveðið að 100% styrkur fengist fyrir sýningar sem næðu 80 mínútum. Einnig var rætt um hvort að hækka ætti styrki til þeirra leikfélaga sem senda fólk í Bandalagsskólann og hvort sá styrkur ætti aðeins að vera fyrir námskeið í sumarskólanum eða öll námskeið.

Hörður Sigurðarson, lénsherra, sagði að ef breyta ætti úthlutunarreglunum ætti að stefna að því að einfalda þær, ekki flækja. Hann sagði að umræddur námskeiðsstyrkur hefði fyrst og fremst verið hugsaður sem hvatning fyrir leikfélögin til að senda fólk í skólann, en ekki til að ráða úrslitum um hvort fólk færi.

Vilborg Valgarðsdóttir, framkvæmdastjóri Bandalagsins, kynnti núverandi úthlutunarreglurnar og hvernig þeim er framfylgt.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum, taldi það mikilvægt að hækka styrki til námskeiðhalds hjá félögum þar sem það sé dýrt að halda slík námskeið og þau séu mikilvægur liður í að styrkja innri starfsemi leikfélaganna. Ekki ættu allir þess kost að sækja Bandalagsskólann.

2. Gagnrýni á Leiklistarvefnum

Hörður kynnti hugmyndir sínar um gagnrýni á leiksýningar áhugafélaganna á leiklistarvefnum. Hann sagðist telja það nauðsynlegt að leikfélögin fengju faglega umfjöllun um sýningar sínar og þar sem enginn fjölmiðill virðist telja sig þess megnugan að bjóða uppá slíkt yrðu leikfélögin sjálf að sjá til þess að þetta yrði gert. Hann lagði fram eftirfarandi tillögu:

Umfjöllun um leiksýningar áhugfélaganna:

Til að Bandalagið geti tryggt faglega umfjöllun um leiksýningar áhugafélaganna þarf að uppfylla tvö skilyrði:

1. Í fyrsta lagi þarf að finna hæfa einstaklinga sem eiga kost á að heimsækja félög í hverju landshorni

2. Í öðru lagi þarf að tryggja fjármagn til að hægt sé að greiða þóknun og kostnað við umfjöllunina

Hvað fyrra atriðið varðar er ekki raunhæft að ætla að viðkomandi séu tilbúnir að ferðast um langan veg til að sjá sýningar sem þeir hyggjast fjalla um. Því er nauðsynlegt að skipta landinu upp í minni svæði og finna einstaklinga sem geta sinnt hverju fyrir sig.
Seinna atriðið byggist á því að a.m.k. einhver félög seú tilbúin að greiða fyrir umfjöllunina með einum eða öðrum hætti. Sennilegt verður að teljast að ekki séu öll félög reiðubúin að leggja til fjármagn í slíkt fyrirtæki. Það er því líklegast til árangurs að slíkt sé gert svæðisbundið og leikfélögunum á hverju svæði sé falið að finna hæfa einstaklinga. Sem sé að í stað þess að Bandalagið sem slíkt finni einstaklingana og standi fyrir fjármögnun verði það sett í hendur félaganna.
Það sem Bandalagið, eða öllu heldur stjórn þess og framkvæmdastjóri, geta gert er að kynna þessa hugmynd og leiða saman félögin á hverju svæði fyrir sig. Hér fylgir nærtækt dæmi um svæðisskiptingu:
Á höfuðborgarsvæðinu eru 8-9 félög sem gætu sameinast um fjármögnun. Ef 2-3 hæfir einstaklingar finnast gætu þeir sinnt leiksýningum þessara félaga. Hugsa má sér að félögin greiði árlega 20.000 kr. í sameiginlegan sjóð sem greitt verði úr til þeirra sem fjalla um sýningarnar. Er gert er ráð fyrir að þessi félög setji upp 15-16 sýningar á ári er hægt að greiða rúmlega 10.000 kr. fyrir umfjöllun.
Hver umfjöllun verður birt á Leiklistarvefnum. Reynandi er að athuga hvort áhugi er hjá dagblöðum að fá að birta umfjöllunina án endurgjalds. Eftir því sem næst verður komist var það fyrst og fremst kostnaðurinn sem olli því að Morgunblaðið hætti umfjöllun um leiksýningar áhugafélaganna. Hér gæti því verið leið fyrir blaðið til að bæta úr því.

Sennilegt er að erfiðara yrði um vik á öðrum svæðum m.a. vegna lengri vegalengda. Skynsamlegast er þó að eftirláta félögunum á hverju svæði fyrir sig að sjá um skipulagningu.

Umræður:
Þorgeir sagði að sér litist vel á hugmyndina, sjálfsagt væri að láta reyna á hvort hægt væri að vinna þetta frá grasrótinni.

Árný Leifsdóttir, Leikfélagi Ölfuss, spurði hvort haldið yrði námskeið í að skrifa gagnrýni.

Þorgeir sagði að það yrði. Hann velti jafnframt fyrir sér hvort framhaldsskólaleikfélögin hefðu áhuga á vera með í gagnrýnihópnum.

Silja Björk Huldudóttir, Hugleik, benti á að sjálfstæðu leikhúsin væru líka úti í kuldanum með gagnrýni hjá fjölmiðlum og hefðu mögulega áhuga á þessu.

Ingvar Bjarnason, Leikfélagi Hafnarfjarðar, spurði hvort eðlilegt væri að leikfélag borgaði manni fyrir að gagnrýna sig.

Þorgeir taldi að það yrði að fá fjarlægð með því að hafa Bandalagið sem millilið.

Silja spurði hvort ekki yrði að leysa það hve misvirk leikfélögin væru. Sum félög settu upp fimm sýningar á meðan önnur settu upp eina.

Lárus Vilhjálmsson, Leikfélagi Hafnarfjarðar, benti á að félög þurfi að eyða peningum í kynningar og markaðssetningu og að líta mætti á þetta sem hluta af því.

Nanna Vilhelmsdóttir, Hugleik, benti á þann möguleika að sækja um styrk, t.d. uppá 20 flugsæti, til að fljúga gagnrýnendum á milli svæða. Það væri ekki erfitt að fá fólk til að fara ef það þyrfti ekki að borga kostnaðinn.

Þorgeir sagði að kosturinn við hugmyndina væri að þetta kallaði fyrst og fremst á frumkvæði þeirra sem vildu að þetta yrði gert, ekki á að þessu yrði miðstýrt.

Guðfinna Gunnarsdóttir, stjórnarmaður, benti á að það gætu komið upp vandamál með að fá fólk til að fara á staði sem dýrt er að ferðast til.

Silja spurði hvort athugað hefði verið með að fá svona gagnrýni birta í Morgunblaðinu þeim að kostnaðarlausu. Mögulega útdrátt með tilvísun á netið. Það hefur ekki verið gert.

Einar Andrésson, Halaleikhópnum, taldi helsta vandamálið yrði að finna hæfa einstaklinga til að sinna þessum skrifum.

3. Margt smátt

Þorgeir greindi frá þróun mála varðandi Margt smátt. Hún verður haldin með sama sniði og síðast nema hvað að það stefnir í að það komi líka sýningar frá Færeyjum sem gestasýningar. Almenn ánægja með það.

4. Menningarsjóðir sveitarfélaga

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, Leikfélaginu Grímni Stykkishólmi, greindi frá að Grímnir væri í þeirri aðstöðu að þurfa skipuleggja sig ár fram í tímann þar sem þau þurfi að skila inn styrkumsókn í Menningarsjóð Vesturlands fyrirfram og tilgreina þá verkefni og leggja fram kostnaðaráætlun. Þetta gerði þeim erfitt fyrir.

Guðfinna greindi frá því að á Suðurlandi væri hægt að sækja um tvisvar á ári og líka eftir á.

Ingólfur Þórsson, varaformaður Bandalagsins, sagði að þetta væri eins á Norðurlandi og á Vesturlandi.

Þorgeir sagði það mögulega tímabært að Bandalagið skoðaði hvaða áhrif nýja menningarsjóðastefnan hefði haft.

5. NEATA-hátíð 2010

Lárus Vilhjálmsson greindi frá stöðu skipulagningar hátíðarinnar. Hún er í meginatriðum á sama stað og greint var frá á síðasta aðalfundi.

Fyrirkomulag gagnrýni á sýningar rætt. Fólk sammála um mikilvægi þess að fá sem flesta til að mæta á hana.

6. Bandalagsskólinn

Fyrirspurn um Bandalagsskólann. Href
na Friðriksdóttir greindi frá stöðu húsnæðismála skólans. Verið er að bíða eftir tilboði frá húsráðendum á Hallormsstað.

Fundi slitið kl. 17.00.

Fundarritari Ármann Guðmundsson.