Hugleikur er á leið á alþjóðlega leiklistarhátíð í Mónakó með sýningu sína Undir Hamrinum, sem reyndar heitir Country Matters í þessari styttu ferðaútgáfu. Leiklistarhátíðin í Mónakó er á vegum alþjóða áhugaleikhússambandsins AITA/IATA og hefur verið haldin á fjögurra ára fresti síðastliðin fimmtíu ár eða þar um bil.
Segja má að hátíðin sé nokkurskonar óformlegur hápunktur á alþjóðasamstarfi áhugaleikhússfólks, en þangað er boðið sýningum frá öllum heimshornum sem þykja framúrskarand á sínu svæði. Það er því mikill heiður fyrir Hugleik að hafa fengið boð um að sýna á hátíðinni, en einungis einu sinni áður hefur íslenskt leikfélag tekið þátt í henni, Leikfélag Hafnarfjarðar fyrir tuttugu árum. Alls verða tuttugu og fjórar sýningar á hátíðinni að þessu sinni. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðu hennar.
Undir Hamrinum, eða Country Matters, eins og hópurinn kýs að kalla sýninguna á erlendri grund, er eftir Hildi Þórðardóttur en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Sýningin er í grunninn einföld og klassísk saga úr íslenskri sveit um fjölskylduleyndarmál og ástir í meinum en efnistökin í þeim litríka ólíkindastíl sem einkennir bæði verk Hugleiks og leikstjórans. Country Matters var fulltrúi Íslands á hátíð NEATA, Norður-Evrópska leiklistarsambandsins, í Eistlandi í fyrra og í framhaldinu var félagið hvatt til að bjóða sýninguna fram sem einn fulltrúa svæðisins á alþjóðahátíðinni. Hugleikur mun sýna sýninguna tvisvar sinnum í hinu glæsilega Princess Grace leikhúsi. Auk þess verður Ágústa ein af þremur námskeiðshöldurum hátíðarinnar. Í ráði er að sýna nokkrar sýningar á Country Matters þegar heim er komið. Hátíðin stendur frá 28. júlí til 6. ágúst. Allir ættu að geta fylgst með hátíðinni úr fjarska því Hugleiksmenn stefna að því að halda dagbók um dvöl sína í smáríkinu á vef félagsins. Eins er ekki útilokað að bloggarar hópsins, þeir Varríus og Ditríus, láti í sér heyra. |