Sunnudaginn 20. maí frumsýna Brúðuheimar í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Gamla manninn og hafið, einstaklega fallega nýja sýningu eftir brúðumeistarann Bernd Ogrodnik, byggð á meistarverki Hemingways. Bernd Ogrodnik heillaði Listahátíðargesti árið 2006 með frumsýningu hins byltingarkennda leikrits Metamorphosis sem síðan hefur ferðast um heiminn við frábærar undirtektir. Hann færir nú sígilda sögu Hemingway á svið í fyrsta skipti í íslensku leikhúsi með  brúðuleiksýningu fyrir fullorðna áhorfendur. Sýningin er liður í Listahátíð í Reykjavík. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.

Gamall maður, lítill bátur, risastór fiskur og hið óendanlega haf.  Sígild saga Ernest Hemingway um epíska baráttu er hér sögð gegnum ljóðrænan miðil brúðuleikhússins í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu. „Maðurinn er ekki gerður til að bíða ósigur. Það er hægt að granda manni en ekki sigra hann.“ Gamli maðurinn og hafið eftir Ernest Hemingway kom fyrst út árið 1952 og er eitt langlífasta verk hans. Sagan, sem sögð er á einfaldan en jafnframt kraftmikinn hátt, færði Hemingway bæði Pulitzer bókmenntaverðlaunin og bókmenntaverðlaun Nóbels.

Hið sígilda stef um manninn sem þarf að kljást við náttúruöflin og sýna hugrekki og dug við lífshættulegar aðstæður, á sér samhljóm meðal Íslendinga enda segir sagan að Hemingway hafi fundið innblástur fyrir bókina við lestur meistaraverks Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, sem skrifuð var árið 1933 og var síðar þýdd yfir á ensku.

Sýningar verða:
Frumsýning  20. maí kl. 17
2. sýning 21. maí kl. 17:00
3. sýning 22. maí kl. 19:30
4. sýning 26. maí kl. 17
Miðaverð: 2.500 kr.

Handrit, brúðugerð, sviðsmynd og flutningur: Bernd Ogrodnik
Ljósahönnun: Lárus Björnsson
Sögumaður: Egill Ólafsson
Sviðsmynd og leikmunir: Frosti Friðriksson, Bernd Ogrodnik
Hljóðupptaka: Halldór Bjarnason

{mos_fb_discuss:2}