Sólarferð fjallar í stuttu máli um hjón sem fara í fyrsta sinn til sólarlanda ásamt vinahjónum til að upplifa þá dásemd sem póstkortahugmyndir þeirra af sólarparadísunum ætti að vera. Aðstæður og umhverfið er þó mun meira framandi en þau gerðu sér í hugarlund og ýmislegt fer á annan veg en ætlað var. Verkið er mjög skemmtilega uppbyggt og uppfullt af húmor um venjulega Íslendinga í framandi heimi.
Leikstjóri uppsetningarinnar er Rúnar Guðbrandsson sem hefur leikstýrt víða um land og hefur langa og mikla reynslu af leik og leikstjórn auk annarra starfa í Íslensku leiklistarlífi. Hann hefur m.a. rekið sinn eigin leikhóp í fjölda ára, Lab Loka að nafni, sem samanstendur af mörgum þekktum atvinnuleikurum og hefur vakið mikla athygli með uppsetningum sínum.
8 reyndir leikarar munu túlka persónur verksins og eru sumir að endurnýja kynnin við leiksvið Litla leikhússins við Sigtún eftir langt hlé. Auk þess vinnur þéttur og góður hópur fólks hin ýmsu hliðarstörf bakvið tjöldin og er sú vinna að komast á fullt skrið.
Stefnt er að því að bjóða áhorfendum í fyrstu Sólarferðina hjá Leikfélagi Selfoss 24. febrúar næstkomandi í fylgd með hjónunum Stefáni og Nínu og upplifa með þeim spennandi, fyndið og á köflum átakanlegt sólarævintýrið sem þau hafa undirbúið og æft frá byrjun janúar.
{mos_fb_discuss:2}