Leikfélag Ölfuss frumsýndi fjölskylduleikritið Mómó eða skrítin saga um tímaþjófana og barnið sem frelsaði tímann úr klóm þeirra í leikstjórn Hrundar Ólafsdóttur laugardaginn 5. apríl.
Leikritið er byggt á sögu þýska rithöfundarins Michael Ende, þess sama og skrifaði Söguna endalausu, og fjallar um litlu stúlkuna Mómó sem birtist dag einn í rústum gamals hringleikahúss og vingast við nágrannana sem þangað leggja leið sína.

 

Lífið er þó ekki eintóm hamingja því illkvittnar verur herja á vini Mómóar og ræna frá þeim öllum frítíma svo ekkert skiptir lengur máli annað en að vinna og græða. Mómó reynir að bjarga vinum sínum frá þessum hræðilegu tímaþjófum og fær meðal annars hjálp úr óvæntri átt.
Jafnvel þótt skáldsagan sé tæplega 40 ára gömul hefur gildi hennar engan veginn rýrnað, sagan á fullt erindi við okkur, stressaða nútímafólkið, hvort sem er börn og fullorðna. Hún minnir okkur á það sem er dýrmætast í lífinu, vináttu og kærleik. Satt best að segja á sagan eiginlega brýnna erindi við okkur nú en nokkru sinni fyrr.

momo02.png Leikhópurinn samanstendur af börnum á öllum aldri, það yngsta er 11 ára og það elsta um fimmtugt. Skortur á karlmönnum í LÖ varð til þess að vaskir sveinar voru fengnir að láni frá Leikfélagi Selfoss og var það mikil gæfa þar sem þeir koma bæði með leikreynslu og leikmuni úr heimahögunum.
Sýnt verður í Versölum í Þorlákshöfn og er nú þegar búið að ákveða að sýna fjórar sýningar, hinar þrjár verða sunnudaginn 6. apríl, laugardaginn 12. apríl og sunnudaginn 13. apríl.