Undanfarin ár hefur aðgengi að upplýsingum um alþjóðleg leikhúsnámskeið og leiklistarhátíðir batnað til muna. Slíkir viðburðir eru nú til dags yfirleitt með heimasvæði á netinu.  Einstaklingar og leikhópar hvaðanæva úr heiminum geta yfirleitt sótt um þátttöku, oftast í gegnum internetið.

Nú er komið sérstakt svæði á vef IATA (International Amateur Theatre Association) með upplýsingum um námskeið og hátíðir sem eru á döfinni í aðildarlöndum þeirra samtaka. Einnig má sjá þau námskeið og hátíðir sem Leiklistarvefurinn hefur birt fréttir af í sér flokki undir flipanum Fréttir.
Þarna geta flestir áhugamenn um leiklist fundið eitthvað við sitt hæfi. Leiklistarhátíðir fyrir börn jafnt sem fullorðna og námskeið í leiklist og ýmsum öðrum greinum leikhússins, svo eitthvað sé nefnt.

Við hvetjum alla til að fylgjast með þessum fréttaflokki sem áhuga hafa á að sækja sér menntun í leiklist og þá margþættu leikhúsupplifun sem fylgir því að sækja leiklistarhátíðir, sem einstaklingar eða með leikhóp.