Samfara ársfundi Bandalagsins á Hallormstað 9.-12. maí var haldin einþáttungahátíð. Júlíus Júlíusson segir sitt álit á þeim sýningum sem þar var boðið upp á.
Mig langaði til þess að tjá mig aðeins um þau verk á einþáttungahátiðinni sem ég sá og um leið að æfa mig í því að skrifa gagnrýni. Ég kom um hádegið á föstudeginum og missti því miður af því sem var í boði á fimmtudeginum.
Leikfélagið Sýnir -– Hverjir voru hvar eftir Guðmund L. Þorvaldsson
Lunkinn, stuttur þáttur sem greip mann á einhvern ótrúlegan hátt, það náði að byggjast upp einhver spenna… sem sat svo í manni eftir að honum lauk. Þátturinn fjallaði um eitthvað, maður var ekki viss um hvað það var, en það skipti engu máli. Ég hugsa jafnvel að það hefði skemmt fyrir ef það hefði komið skýrt fram hvað nákvæmlega var um að vera. Leikstjórnin var afbragð og leikararnir stóðu sig með miklum ágætum, Þorgeir Tryggvason var óttalega aumingjalegur en Ingólfur Þórsson áhrifamestur.
Leikfélagið Grímnir Stykkishólmi – Meindýr eftir Bjarna Guðmarsson.
Þessi litli farsi getur verið fyndinn á köflum og var það, en sviðsmyndin var ekki nógu góð þarna í íþróttahúsinu og truflaði það annars ágæta leikara nokkuð. Það vantaði fínpússningu á verkið til þess að þétta það, þátturinn var of laus í sér og leið fyrir það.
Leikfélag Fljótdalshéraðs – Maðkurinn eftir Halldór Laxness.
Því miður missti ég af þessum þætti vegna rangra upplýsinga, en miðað við það sem ég heyrði látið af sýningunni og það sem ég þekki til Vigþórs Sjafnars, hefur þetta eflaust verið hrein snilld.
Leikfélagið Mosfellssveitar – Samtal fyrir einn eftir Dario Fo.
Það var mjög gaman að sjá þennan annars ekkert sérlega skemmtilega þátt eftir Dario Fo lifna við og verða virkilega eftirminnilegan. Það er kannski aðallega vegna þess að karlmaður lék konuna í verkinu, af þeim sökum horfði maður á þáttinn með öðrum augum og fékk aðra sýn á innihaldið. Bjarney Lúðvíksdóttir leikstjóri sýnir þarna hve góður leikstjóri hún er, maður fann það vel í gegnum verkið hvað hún hafði lagt upp með. Hjalti Kristjánsson lék konuna í verkinu hreint snilldar vel og vöknuðu margar spurningar um Hjalta á eftir. Mótleikari Hjalta, uppblásin dúkka, hefði kannski mátt sleppa því að mæta en mér fannst þetta ekki vera þannig að það væri eitthvað mál, ég var það hugfanginn af leik Hjalta að ég tók varla eftir annars ómyndarlegri dúkku.
Freyvangsleikhúsið – Niðurtalningin eftir Alan Aykbourne
Mjög skemmtilegur þáttur og sniðug hugmynd að hafa raddir fyrir hugsanir, mér fannst þær skila sér vel en eflaust hafa þeir sem sátu aftar ekki heyrt eins vel og þeir sem fremstir voru (það var nú ekki við Freyvangsfólkð að sakast að ekki var hljóðkerfi á sviðinu ). Stefán og Hjördís léku þetta nánast óaðfinnanlega, raddirnar pössuðu mjög vel við, ég keypti þær eins og skot, magnaðir svipir hjá leikurunum og gott vald á því sem fram fór. Ég datt alveg inn í þennan þátt og fannst hann fyndin, vel gert og góð leikstjórn hjá Guðrúnu Höllu
Leikhópurinn Vera og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar – Gegnsætt fólk eftir Benóný Ægisson
Það var hrein unun að horfa á unglingana leika þennan þátt, einbeitingin 100%, framburður, framsetning og þess háttar alveg til fyrirmyndar. Þarna var okkur boðið uppá vel æfðan þátt og mættu margir af þeim sem fram komu á hátíðinni taka þau til fyrirmyndar með það. Valdimar Másson er greinilega á réttri hillu. Hvernig sem það nú hljómar er ekkert sérstakt um verkið að segja, ég hreyfst aðallega að leiknum, leikgleðinni, hversu einbeitt þau voru og skiluðu þessu vel til áhorfenda.
Ástir í viðjum efnafræðinnar eftir Jón Gunnar Axelsson
Leikfélag Fljótdalshéraðs
Þessi þáttur rann mér því miður úr greipum og get ég ekkert tjáð mig um hann, en einhver sagði að leikstjórinn hefði skellt á of fljótt.
Leikfélagið Sýnir – Hann eftir Júlíus Júlíusson
Þar sem þessi þáttur var á mínum vegum get ég nú ekki farið að tjá mig um hann hér, en ég get sagt frá því að þetta var mikil upplifun að sjá þetta fæðast og finna þessi miklu og góðu viðbrögð. Leikararnir stóðu sig frábærlega og oft spyr maður sig að því hvar munurinn á áhugamennskunni og atvinnumennskunni liggi. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn kærlega fyrir.
Freyvangsleikhúsið– Hold og hár eftir Ólaf Rósinkrans ( Hannes Örn Blandon )
Afskaplega skemmtilegur og léttur söngleikur, þarna var verið að gera grín af því sem við þekkjum öll sem stöndum að áhugaleikhúsunum. Leikararnir voru mjög góðir. Að ósekju hefði verkið þolað lengri æfingartíma en þar sem leikgleðin var svo mikil og stuðið í fyrirrúmi kom það ekki að sök. Það mætti taka þessa hugmynd og fara lengra með hana ég hef trú á því að úr því gæti orðið eitthvað gott. Mér fannst þessi þáttur vera gott mótvægi við flesta aðra þætti og gerði annars ágæta einþáttungahátið betri
Hugleikur – Dagurinn eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur
Boðskapinn í þessu verki finnur hver og einn eftir sinni trú, ástandi og eftir því hvernig hann er stemmdur meðan hann horfir á verkið. Þetta var mjög vel gert, frábær útfærsla leikstjórans Sesselju Traustadóttur, uppsetning, staðsetningar og svo lýsingin þar sem leikarar voru á fleygiferð um allt rýmið með vasaljós, leikkonurnar tvær Hrefna Friðriksdóttir og Hulda Hákonardóttir léku þetta svo vel að það var hrein unum að horfa á.
Með von um að fleiri sjái sér fært um að vera með á næstu hátíð.