– Um brotthvarf varnarliðsins og önnur þjóðfélagsmál –

ImageLeiklistarsamband Íslands stendur fyrir umræðufundi í Leikhúskjallaranum laugardaginn 1. apríl kl. 15:00.
 
Leiklistarsamband Íslands hefur undanfarin ár efnt til umræðufunda um leiklist og leikhússtarfsemi. Í þetta sinn eru umræðufundirnir haldnir í samstarfi við fræðsludeild Þjóðleikhússins. Yfirskrift fundanna er ,,Hvað kemur þetta okkur við?” og efni þeirra er tekið úr fréttum samfélagsins en ekki beint úr leikhúsinu eins og áður hefur verið gert. Á laugardaginn munu Andri Snær Magnason, rithöfundur, Árni Bergmann, rithöfundur og Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikstjóri fjalla um brotthvarf varnarliðsins og önnur þjóðfélagsmál.
 
Markmiðið með umræðufundunum er að fjalla um þær fréttir sem efst eru á baugi í samfélaginu út frá pólitískum og siðferðislegum forsendum. Hefur leikhúsið eitthvað að segja? Ber okkur skylda til að fjalla um málefni líðandi stundar? Hvernig getur leikhúsið tekið á vandamálum eða fréttum samtímans með listrænum hætti?
 
Nánari upplýsingar veitir Erling Jóhannesson frá Leiklistarsambandi Íslands (erlingj@vortex.is) í síma 891 6330 eða Ingibjörg Þórisdóttir, verkefnisstjóri fræðsludeildar Þjóðleikhússins (ith@leikhusid.is) í síma 585 1200.