Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 3. febrúar Ballið á Bessastöðum, nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Gerði Kristnýju með tónlist eftir Braga Valdimar Skúlason. Verkið er byggt að hluta á hinum geysivinsælu Bessastaðabókum eftir Gerði Kristnýju og tónlistin er eftir Braga Valdimar Skúlason, sem meðal annars hefur getið sér gott orð með Baggalúti og Memfismafíunni, en semur nú í fyrsta sinn tónlist fyrir leikhús. Gerður Kristný og Bragi Valdimar eiga heiðurinn af söngtextum í sýningunni. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Forsetinn á Bessastöðum er að drukkna í skyldustörfum og bréfaflóði, en dreymir um að fá tíma til að skoða skýin, eignast góða vini og borða pönnukökur. Hann fær í heimsókn kóng og drottningu, með barnabarnið sitt, prinsessuna. Þegar konungshjónin eru rokin af stað til að skoða íslenska náttúru halda forsetinn og prinsessan í ævintýralega för um fjöll og firnindi.  Á ferðalagi sínu hitta þau diskókýr og í för með þeim slæst landnámshæna. Forsetinn og prinsessan þurfa að komast tímanlega heim á Bessastaði til að veita fálkaorður og slá upp balli – en ekki fer allt eins og til er ætlast – enda er gamall, hrekkjóttur bakaradraugur á kreiki og krefst athygli!

Það er óhætt að lofa frábærri skemmtun á Ballinu á Bessastöðum, enda leiftrar leikritið af gamansemi og gáska. Lög Braga Valdimars eiga án efa eftir að vera kyrjuð af krökkum á öllum aldri eftir sýninguna, en tónlistin er væntanleg á geislaplötu.

Leikmynd gerir Guðrún Öyahals, búninga hannar María Ólafsdóttir, Ólafur Ágúst Stefánsson sér um lýsingu og brúðugerð er í höndum Bernds Ogrodniks.

Leikarar í sýningunni eru Jóhannes Haukur Jóhannesson, sem fer með hlutverk forsetans á Bessastöðum, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, sem leikur prinsessuna, Kjartan Guðjónsson, Örn Árnason, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Þórunn Lárusdóttir, Ævar Þór Benediktsson, Hilmir Jensson og Lára Sveinsdóttir.

Hljóðfæraleikarar eru þau Baldur Ragnarsson, Jón Geir Jóhannsson og Unnur Birna Björnsdóttir.

{mos_fb_discuss:2}