Þjóðleikhúsið hefur í samvinnu við “Pourquoi Pas – Franskt vor á Íslandi” boðið hingað til lands gestaleik á einu af vinsælustu verkum franskra leikbókmennta, Ímyndunarveikinni eftir Molière. Einn af áhugaverðustu leikstjórum Frakka af yngri kynslóðinni, Arthur Nauzyciel, leikstýrir sýningunni. Sýningin hefur hlotið mikið lof og verið sýnd víða um Frakkland og í Rússlandi á undanförnum árum.

 

Áhorfendum gefst hér einstakt tækifæri til að sjá sýningu á einu frægasta verki gullaldar franskrar leikritunar, í óvenjulegri og hrífandi leiksýningu. Sýningar verða á Stóra sviði Þjóðleikhússins fimmtudagskvöldið 22. mars og föstudagskvöldið 23. mars.

Nálgun Nauzyciels við efniviðinn þykir í senn óvenju næm og nýstárleg. Sýningin þykir vel úthugsuð, en um leið er hún ákaflega falleg og hreyfir við áhorfendum á sérstakan hátt. Íslensk leikkona, Brynhildur Guðjónsdóttir, mun taka þátt í sýningunni á Íslandi og fara með hlutverk dóttur Molières. Leikið verður að mestu á frönsku með íslenskum texta á skjá, en einnig að hluta á íslensku. Boðið verður upp á umræður í lok sýninganna.

Ímyndunarveikin er síðasta leikritið sem Molière skrifaði, en leikskáldið svo að segja dó á sviðinu; á fjórðu sýningu á Ímyndunarveikinni hneig Molière niður og var dáinn nokkrum dögum síðar. Molière lék sjálfur í öllum verkum sínum, ásamt leikhópi sem samanstóð af nánustu fjölskyldu hans og vinum. Leikstjóri sýningarinnar á Ímyndunarveikinni nú, Arthur Nauzyciel, lítur svo á að með Ímyndunarveikinni hafi Molière ritað einskonar kveðjubréf til leikhópsins; hann vissi að dauðinn nálgaðist og skrifaði persónurnar í verkinu með leikara sem hann vildi hafa í kringum sig á dauðastundinni í huga.

Sýningin á Ímyndunarveikinni markar upphafið að samstarfi Nauzyciels og Þjóðleikhússins, en hann mun setja upp á næsta ári í Þjóðleikhúsinu nýtt leikrit eftir hina þekktu frönsku skáldkonu Marie Darrieussecq. Darrieussecq skrifað verkið, sem hefur hlotið vinnuheitið Sædýrasafnið, sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið. Kynning á verkinu og höfundinum mun fara fram í Viku bókarinnar undir lok aprílmánaðar.
Arthur Nauzyciel fæddist í Frakklandi árið 1967 og lærði leiklist við Théâtre National de Chaillot, auk þess sem hann stundaði nám í listasögu og kvikmyndafræði. Hann hóf feril sinn í leikhúsi sem leikari, og hefur leikið í fjölmörgum sýningum. Hann stofnaði árið 1999 leikhópinn Compagnie 41751/Arthur Nauzyciel, og hefur sett upp sýningar sínar ýmist með leikhópnum eða hjá leikhúsum í Frakklandi og Bandaríkjunum.