Listahátíðin Vinnslan verður haldin laugardagskvöldið 9. apríl í Tjarnarbíói. Um 30 listamenn sýna verk í vinnslu og fylla rými Tjarnarbíós með öllum listformum. Listahópurinn Vinnslan heldur sína árlegu listahátíð á laugardaginn frá kl. 19:30 til 23 í Tjarnarbíói. Á þriðja tug listamanna sýna verk í vinnslu en öll rými Tjarnarbíós verða vettvangur listflutnings, hvort sem um er að ræða svið, baksviðsrými eða salerni.

Á dagskrá verður myndlist, lifandi tónlist, gjörningar, dans, leikhúsverk, myndbandslist og fleira. Síðastliðin þrjú ár hefur Vinnslan staðið fyrir níu samsýningum og hafa 250 listamenn úr öllum listgreinum tekið þátt. Sérstök áhersla er lögð á verk í vinnslu eða þróunarstarf, rannsóknir og tilraunir listamanna.

Hátíðin veitir gestum tækifæri til þess að öðlast dýpri skilning á starfi og listsköpun listamanna úr ólíkum listgreinum. Á meðal listamanna á listahátíð Vinnslunnar í ár eru þau Sigga Soffía, Stafrænn Hákon, Mikael Lind, Körrent, Quest, Harpa Rún Ólafsdóttir, Einar Indra og Elín Anna Þórisdóttir.

Boðið verður upp á það ferskasta sem er að gerast í listum og lýkur kvöldinu á tónleikum, þar sem tilvalið er að dansa af sér veturinn.

Frekari upplýsingar veita Harpa Fönn Sigurjónsdóttir í síma 7731770 og Vala Ómarsdóttir í síma 846-1127.

// Heildarlisti yfir listamenn Vinnslunnar, 9. apríl 2016:
Andrea Elín Vilhjálmsdóttir, Arnar Eyklíður, Berglind Hreiðarsdóttir, Einar Indra, Eydís Rose Vilmundardóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, Hrefna Lind Lárusdóttir, Hallfríður Tryggvadóttir, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, Haraldur Ægir Guðmundsson, Tríó Blóð, Jóel Pálsson, Harpa Rún Ólafsdóttir, Elín Anna Þórisdóttir Hillevi, Cecilia Högström, Lína Thoroddsen, Listahópurinn Vinnslan, Mikael Lind, Quest, Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson, RASK, Sigga Soffía, Símon Vestarr, Solveig Thoroddsen, Margrét Helga Sesseljudóttir, Stafrænn Hákon, Sómi Þjóðar og Vera&Ása.

// Vinnslan:
Vinnslan skipuleggur listahátíðir og skapar og framleiðir sín eigin verk. Fyrri verk Vinnslunnar eru til dæmis leikhúsverkið STRENGIR og stuttmyndin ROF. Listahópurinn Vinnslan samanstendur af þessum listamönnum: María Kjartansdóttir myndlistarmaður og ljósmyndari, Vala Ómarsdóttir leikstjóri og sviðslistakona, Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari og leikstjóri, Birgir Hilmarsson tónlistarmaður, Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, tónlistar og kvikmyndagerðarkona, og Arnar Ingvarsson, leikhús- og tæknimaður.

Viðburður á Facebook: https://www.facebook.com/events/1702829466673555/
Miðasala er á Midi.is: https://midi.is/atburdir/1/9510/Vinnslan_10