ImageOpinn samlestur í Borgarleikhúsinu.
 
Nú eru að hefjast æfingar í Borgarleikhúsinu á óborganlegum farsa sem hefur fengið nafnið Viltu finna milljón? Gamanleikurinn verður frumsýndur á Nýja sviði Borgarleikhússins í maí. Landslið grínara situr nú og les sjóðheitt, nýútprentað handritið í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikarar eru: Eggert Þorleifsson, Helga Braga Jónsdóttir, Marta Nordal, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Bergur Þór Ingólfsson, Gunnar Hansson og Theodór Júlíusson. Leikstóri er Þór Tulinius.

Verkið heitir á frummálinu Funny money og er eftir Ray Cooney, verkið hefur farið sigurför um Evrópu og Ameríku síðan það var frumsýnt í London 1994.  Ray Cooney er að góðu kunnur íslenskum áhorfendum en gleðileikurinn “Með vífið í lúkunum”  í leikstjórn Þórs Tulinius, var sýnt tvö leikár í röð fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu.

Opin samlestur á Viltu finna milljón? verður haldinn mánudaginn 20.mars á Nýja sviði Borgarleikhússins  kl. 12:30 og eru allir áhugasamir velkomnir. Við þetta tækifæri mun Guðjón Pedersen leikhússtjóri kynna væntanlega hláturhátíð sem verður í Borgareikhúsinu í maí. Aðgangur ókeypis.