Þótt það að færa skáldsögu á svið sé algengt verkefni íslenskra leikfélaga er ekki þar með sagt að slíkt sé einfalt. Málið flækist enn á ný þegar skáldsagan hefur áður verið aðlöguð formi í ógleymanlegri kvikmynd. Ekkert af þessu virðist þó trufla Leikfélag Selfoss, sem færir okkur Djöflaeyjuna, sem Einar Kárason færði í letur en er löngu orðin þjóðareign. Um er að ræða nýja leikgerð sem bætir einu lagi ofaná fyrri aðlaganir, en leikhópur og leikstjórinn, Rúnar Guðbrandsson, hafa sniðið að sínu formi og fólki, og gert það vel.

Trú sínum tíma
Djöflaeyjan er tímabilssýning eða það sem stundum er kallað períóda og afskaplega vel heppnuð sem slík. Leikmynd, sérlega vel hönnuð af Maríu Marko og Eyjólfi Pálmarssyni, og búningar eru laus við óþarfa og prjál en vel nýtt, kannski eins og braggarnir voru á sínum tíma? Eins þótti mér gott að hvergi skyldi blekkingin brotin með vísunum í nútímann, eins og tímabilssýningar freistast oft til að gera. Sýningin var trú sínum anda út í gegn og treysti áhorfendum sjálfum til að túlka og draga sínar ályktanir.
Óþarft ætti að vera að rekja söguþráð Djöflaeyjunnar fyrir nokkrum, ef fólk þekkir hann ekki fyrir verður upplifunin í Litla leikhúsinu bara ennþá betri. Íslenska fjölskylduharmsagan speglar Íslandsharmsöguna í sinni hreinustu mynd með eftirminnilegum persónum, atburðum, umhverfi. Og það er einmitt svo auðvelt að spegla sig, því öll eigum við svona fólk. Í svona stórri sýningu er erfitt að nefna einstaka leikara, en styrkurinn liggur einmitt í fjöldanum. Margar nafnlausar aukapersónur sem varla sjást nema í bakgrunni eða eiga stutta en áhrifaríka innkomu skapa tilfinningu fyrir bæjarbragnum, gestaganginum og þessum óstöðvandi straumi fólks sem þú veist ekki hvaðan kom eða hvert er að fara.

En samt vil ég nefna…
Þegar ég sá að Hafþór Agnar Unnarsson og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir ættu að leika Badda og Gerði rifjaðist upp fyrir mér þegar Birgitta Haukdal og Jónsi í Svörtum fötum voru stórstjörnur og valin í hlutverk Sandy og Danny í Grease. Þessi tvö búa yfir ótrúlegri sviðsorku og útgeislun sem gæti fyllt mikið stærra svið en hér við Sigtúnið. Birta vex með hverri sýningu og skilar sakleysi og togstreytu án nokkurrar tilGerðar. Hún fær ekki margar línur fyrr en hún hefur upp raust sína í söng, sem kristallar bælinguna á mjög áhrifaríkan hátt. Hafþóri tekst einhvernvegin að rífa Badda úr klóm Baltasars og gera að sínum, háværum óþolandi sjarmör. Sérstaklega er textameðferðin hjá honum eftirminnileg þar sem sletturnar og stælarnir renna uppúr Badda algjörlega áreynslulast, hvort sem hann er allsgáður eða ekki. Nikulás Hansen Daðason skipaði síðan þriðja horn þríhyrningsins í hlutverki Danna. Einlæg og á köflum tær túlkun hans skapaði fullkomið mótvægi við töffarann Badda og hina barnalegu Gerði. Danni er í rauninni aðalpersóna verksins, þráðurinn sem bindur allt saman og varpar ljósi á hina íbua Thulekampsins. Samspil þessara þriggja gerði ástarþríhyrninginn óþægilegan og eftirminnilegan, eins og hann á að vera.
Önnur eftirminnileg pör setja svip sinn á sýninguna. Íris og Hannes Örn Blandon tróna yfir hópinn sem Tommi og Lína, reynslumikil og örugg. Sara Blandon skapar óbeislaða og orkumikla Dollí sem ber Gretti fullkomlega ofurliði, sem F. Elli Hafliðason dregur faglega fram úr skugganum í skemmtilegu samspili. Guðfinna Gunnarsdóttir er ógleymanleg í hlutverki Þórgunnar, uppfull af hráum sársauka í túlkun sem verður gróteskari eftir því sem sígur á ógæfuhliðina. Sögumennirnir, Sigríður Hafsteinsdóttir, Hrefna Clausen og Kristín Þóra Albertsdóttir ramma sýninguna skemmtilega inn og er innkoma Kristínar Þóru þar sérstaklega áhrifamikil. Það er augljóst, eins og segir í leikskrá, að leikararnir hafa sjálfir legið yfir smáatriðum í persónusköpun og bakgrunni. Þetta skilar sér svo sannarlega og skiptir mál.
Að lokum verður að minnast á tónlistina sem að vanda er í lifandi flutningi. Guðný Lára Gunnarsdóttir og Stefán Örn Viðarsson halda þar um stjórnartaumana og tekst vel upp. Það eru hörkuraddir í leikhópinum sem fá að springa út en eins vinnur fjöldinn þarna með heildarmyndinni. Tónlistin er ekki bara veggur á sviðinu, heldur hvolfþak – sem á vel við.

Allt er aðlögun
Við erum nýlega búin að hlusta á fréttaflutning um fátækt á Íslandi. Þótt slík umfjöllun sé jafnan sláandi er því miður ekki um nýja bólu að ræða. Djöflaeyjan færir okkur aftur til fortíðar sem búið er að jafna við jörðu, en er því miður ekki eins horfin og ætla mætti. Kannski er aðlögunin sem ég nefndi í upphafi lykillinn að þessu öllu saman. Allt lagar sig að aðstæðum, hvort sem það er bók sem verður leikverk, drengur sem verður alkóhólisti eftir misheppnaða særingu eða kerling sem verður göldrótt þegar lífið fer um hana óblíðum höndum. Í Djöflaeyjunni sjáum við manneskjur eyðileggja hverja aðra, kynslóð fram af kynslóð, vegna þess að eitthvað annað og meira eyðileggur þau. Þegar upp er staðið er allt bara æviskeið sem tekur enda um leið og annað hefst. Það er hins vegar okkar að ákveða hvað við gerum við arfinn í beinunum þegar allt hefst að nýju. Þessi sýning á mikilvægt erindi við nútímann, á tímum verkfalla og veirusýkinga, því við erum ennþá öll á þessari Djöflaeyju.

Harpa Rún Kristjánsdóttir