Nú liggur dagskrá starfsársins 2007-2008 hjá Íslensku óperunni fyrir. Í vetur koma við sögu kvenhetjur frá ýmsum tímabilum, íslenskir sem erlendir stórsöngvarar, nýjungar í bland við dagskrárliði sem þegar hafa fest sig í sessi og ýmislegt fleira spennandi. Fyrsta frumsýning vetrarins verður 4. október, en þá verður frumsýnd hér á landi óperan Ariadne (Ariadne auf Naxos) eftir Richard Strauss. Hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecy, aðstoðarhljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason og leikstjóri er Andreas Franz.


 Í helstu hlutverkum eru Hanna Dóra Sturludóttir, Arndís Halla Ásgeirsdóttir, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Kolbeinn Ketilsson og Ágúst Ólafsson, en þar að auki syngja í sýningunni þau Bergþór Pálsson, Bragi Bergþórsson, Þorsteinn Helgi Árbjörnsson, Davíð Ólafsson, Hlöðver Sigurðsson, Hrafnhildur Björnsdóttir, Anna Margrét Óskarsdóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Ásgeir Páll Ágústsson, Þorvaldur Þorvaldsson og Jón Leifsson, auk þess sem Ingvar E. Sigurðsson er í talhlutverki. Leikmynd hannar Axel Hallkell Jóhannesson, búninga hanna Dýrleif Ýr Örlygsdóttir og Margrét Einarsdóttir, og ljósahönnuður er Björn Bergsteinn Guðmundsson.  Miðasalan hefur verið opnuð og er hægt að kaupa miða sem fyrr gegn um síma 511-4200, á staðnum hér í Íslensku óperunni og á netinu, www.opera.is.
 
Næsta stóra óperuuppfærsla hjá Íslensku óperunni í vetur er La traviata eftir Giuseppi Verdi, sem verður frumsýnd 8. febrúar með Sigrúnu Pálmadóttur í hlutverki Violettu. Þá stígur Janis Joplin á svið Óperunnar í glænýju verki Ólafs Hauks Símonarsonar og bandaríski stórsöngvarinn Sir Willard White sækir okkur heim, svo dæmi séu nefnd. Allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðunni, www.opera.is.