Leikskáld  framtíðarinnar áttu sviðið síðasta laugardagskvöld þegar úrslit  hinnar árlegu  örleikritasamkeppni Þjóðleikhússins og Listaháskóla Íslands fyrir  framhaldsskólanema fór fram. Fimm verk voru valin til þátttöku í úrslitunum en  fjöldi örleikrita barst vítt og breitt af landinu. Leiklistarnemar á öðru ári í LHÍ  fluttu verkin með tilþrifum en leikskáldin sem komust í úrslit voru Árni  Arason, Guðrún Sóley Sigurðardóttir, Adam Hoffritz, Ingi Vífill Guðmundsson og  Guðmunda Ólafsdóttir.

Sigurvegari keppninnar var Guðmunda Ólafsdóttir  sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir verk sitt Svartur hattur. Í öðru sæti var  Guðrún Sóley Sigurðardóttir – en þess má geta að hún sigraði keppnina í fyrra  og hlaut þá einnig sérstök verðlaun áhorfenda líkt og í ár. Verk Guðrúnar  heitir Afsakið er þessi stóll upptekinn? Þriðju verðlaun hlaut síðan Árni  Arason fyrir örleikritið Gáfnafar í hættu. Verðlaunahafarnir hlutu  peningaverðlaun en allir þátttakendur fengu ennfremur viðukenningarskjal og  gjafakort í Þjóðleikhúsið.

Dómnefnd  kvöldsins skipuðu leikskáldið Ólafur Haukur Símonarson, Ragnheiður Skúladóttir  deildarforseti Leiklistardeildar LHÍ og Snæbjörg Sigurgeirsdóttir raddkennari  við LHÍ.

{mos_fb_discuss:2}