Hver sá einstaklingur sem telur sig hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á vegum BÍL er hvattur til að tilkynna um atvik til formanns eða framkvæmdastjóra BÍL.
 
Efrtirfarandi verklagsreglur voru samþykktar á aðalfundi BÍL 19. sept. 2020:
 
Verklagsreglur Bandalags íslenskra leikfélaga (Bandalagsins) um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í leiklistarstarfi.
 
1.gr.
Markmið
Í leiklistarstarfi ber að hafa jafnræði og virðingu að leiðarljósi í samskiptum einstaklinga.
Kynbundin og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi (brot) er með öllu óheimilt í starfi á vegum Bandalagsins og aðildarfélaga. Brot eru hvorki liðin í samskiptum starfsfólks og stjórnenda innbyrðis, samskiptum þeirra við þátttakendur né í samskiptum þátttakenda í leiklistarstarfi innbyrðis.
Markmið með verklagsreglum þessum er að stuðla að því að úrræði séu til staðar telji einhver sig hafa orðið fyrir slíkum brotum.
 
2. gr.
Orðskýringar
Með kynbundinni áreitni eða ofbeldi er átt við hegðun sem tengist kyni þess einstaklings sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar eða niðurlægjandi eða valda líkamlegum eða sálrænum skaða.
Með kynferðislegri áreitni eða ofbeldi er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess einstaklings sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra eða niðurlægjandi aðstæðna, svo og þegar hegðunin felur í sér brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.
Með hugtakinu starfsfólk og stjórnendur er átt við öll þau sem starfa á vegum Bandalagsins eða einstakra aðildarfélaga, hvort sem þau eru skipuð til starfans, eru í beinu ráðningarsambandi eða eru verktakar.
Með hugtakinu þátttakendur er átt við öll þau sem taka þátt í starfi á vegum Bandalagsins eða aðildarfélaga, t.d. þátttakendur á fundum, námskeiðum, skemmtunum og í einstaka leiksýningum.
 
3. gr.
Viðbrögð Bandalagsins
Almennt leitast Bandalagið við að beita forvörnum og fræðslu til að koma í veg fyrir brot í starfsemi sinni.
Hver sá einstaklingur sem vill bera fram kvörtun vegna brots sem viðkomandi telur sig verða eða hafa orðið fyrir í starfsemi á vegum Bandalagsins getur snúið sér til framkvæmdastjóra og/eða formanns stjórnar Bandalagsins. Hið sama á við ef einstaklingur telur alvarlega hættu á að brot verði framið í leiklistarstarfi á vegum Bandalagsins, t.d. vegna upplýsinga um önnur alvarleg brot þess sem tekur þátt í umræddri starfsemi.
Framkvæmdastjóri og formaður stjórnar taka við og kanna kvartanir vegna brots. Þau geta leitað til einstaklings sem hefur fagþekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi ef þörf krefur. Kanna skal málið eftir því sem unnt er, meðal annars með því að afla gagna, ræða við þá sem hlut eiga að máli og eftir atvikum aðra sem varpað geta ljósi á málið. Óski viðkomandi eftir að kæra mál til lögreglu skal veita aðstoð við það eftir föngum svo og að leiðbeina brotaþola um að leita sér faglegrar aðstoðar eftir því sem við á. Ef brot beinist gegn barni ber tafarlaust að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga.
Þegar mál hefur verið kannað eins og unnt er taka framkvæmdastjóri og formaður stjórnar ákvörðun um hvort og þá hvaða úrræða réttast er að grípa til. Reyna skal að ná sátt um niðurstöður eftir því sem við. Úrræði miðast að öðru leyti við þær upplýsingar sem fyrir liggja, alvarleika málsatvika og aðstæður að öðru leyti.
Meðal úrræða er heimild til að útiloka einstakling frá starfsemi á vegum Bandalagsins að öllu leyti, eða frá tiltekinni starfsemi, ef talið er að þátttaka viðkomandi, með hliðsjón af eðli og alvarleika brots, ógni heilsu eða öryggi brotaþola eða heilsu eða öryggi annarra. Ef brot er ekki talið ógna heilsu eða öryggi annarra er heimilt að bjóða brotaþola forgang að tilteknum þáttum starfseminnar, svo sem að sækja fundi og námskeið, og útiloka þann sem kvörtun beinist að frá þeim viðburðum sem brotaþoli velur að sækja hverju sinni.
Öllum þeim sem að málum koma er skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem unnið er með og rík áhersla er lögð á vernd og öryggi persónuupplýsinga, í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
 
4. gr.
Viðbrögð aðildarfélaga
Bandalagið hvetur öll aðildarfélög sín til að marka stefnu um hvernig koma megi í veg fyrir brot og setja sér verklagsreglur um viðbrögð við brotum sem falla að starfsemi hvers og eins félags.
Í verklagsreglum komi að lágmarki fram hvert megi snúa sér með kvörtun vegna brots og hver verði frekari viðbrögð.
Aðildarfélag skal leitast við að kynna verklagsreglur sínar með skilvirkum hætti fyrir öllum þeim sem taka þátt í starfsemi á vegum félagsins.
 
5. gr.
Gildistaka
Verklagsreglur þessar öðlast gildi við staðfestingu á aðalfundi Bandalagsins.