Leiklistarsamband Íslands hefur ávallt fengið íslenskan leikhúslistamann til að semja sérstakt ávarp í tilefni Alþjóða leiklistardagsins. Hefur sú hefð skapast að það hafi verið flutt af höfundi í útvarpi þann dag, sem og af stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir sýningu. Þá hafa leikhúslistamenn um allt land stigið fram fyrir tjald leikhúsa sinna og flutt ávarpið íslenska þetta kvöld. Dagblöð hafa gjarnan birt ávarpið og það hefur birst á ýmsum vefsíðum menningarstofnana og fjölmiðla. Ávarpið semur að þessu sinni leikarinn og leikstjórinn Benedikt Erlingsson.

Frá árinu 1962 hefur Alþjóða leiklistardagurinn verið haldinn hátíðlegur um allan heim. Þá hefur heimskunnur leikhúslistamaður verið fenginn til að semja ávarp í tilefni dagsins af Alþjóða leiklistarstofnuninni, ITI, sem hefur aðsetur í Unesco-byggingunni í París. Að þessu sinni er það kanadíski leikhúsfrömuðurinn, leikstjórinn og leikarinn Robert Lepage sem semur alþjóðaávarpið í tilefni dagsins.

 

benedikterlingsfrett.jpgBenedikt Erlingsson:

Ávarp Alþjóða leiklistardagsins, 27. mars 2008

(Flytjandinn skal vera alvarlegur og ávarpa okkur af einurð og einlægni.)

Kæru leikhússgestir.

Í dag er Alþjóða leiklistardagurinn .
Þá eru haldnar ræður og gefin ávörp.
Þið áhorfendur góðir fáið ekki að njóta leiksýningarinnar fyrr en sá sem hér stendur hefur lokið þessu ávarpi.
(Dok)
Þetta er svona um allan heim í dag.
Þessvegna er dagurinn kallaður Alþjóða leiklistardagurinn.
(Dok)
Þessar ræður fjalla yfirleitt um getu leiklistarinnar til að stuðla að skilningi og friði þjóða í milli eða upphaf og tilgang sviðs listarinnar í sögulegu ljósi og svona ræður hafa verið haldnar við upphaf leiksýninga á þessum degi síðan 1962 eða í 46 ár.

(þögn, nýr tónn.)

Samt er það svo að leiklistinni sem framin verður hér í kvöld er engin greiði gerður með þessu ávarpi.
(Stutt dok)
Höfundar sýningarinnar: Skáldið, leikstjórinn,leikhópurinn og samverkamenn þeirra, gerðu ekki ráð fyrir svona ávarpi í upphafi leiks.
Þessi ræða er ekki partur af hinu ósýnilega samkomulagi sem reynt verður að gera við ykkur eftir andartak.
(Dok)
Leikararnir standa nú að tjaldabaki um allan heim í kvöld og bíða þess pirraðir að þessum ræðum ljúki og leikurinn megi hefjast. Þetta ávarp er ekki að hjálpa þeim.
(Dok)
Og svo eru það þið áhorfendur góðir. Fæst ykkar áttuð von á þessari truflun. Ávarp vegna Alþjóða leiklistardagsins! Eitthvað sem þið vissuð ekki að væri til! Kannski setur þetta tal ykkur úr stuði og þið verðið ekki mönnum sinnandi í langa stund og náið engu sambandi við sýninguna.

(þögn, nýr tónn)

En ef til vill mun leiksýningin, sem hér fer í gang eftir andartak, lifa af þetta ávarp.
Ef til vill mun þetta tal eins og annað tal á hátíðisdögum hverfa úr huga ykkar undrafljótt.
Kannski mun leiklistin “lifa af ” Alþjóða leiklistardaginn og hrista hann af sér eins og svo margt annað í gegnum tíðina.
Hún er nefnilega eldra fyrirbrigði en Alþjóða leiklistardagurinn, eins og sjálfsagt verður tíundað í ávörpum um allan heim í kvöld.
(Dok)
Sumir halda að hún eigi upphaf sitt í skuggaleik frummanna við varðeldanna í grárri forneskju.
Aðrir tengja upphafið við fyrstu trúarathafnir mannsins eða jafnvel fæðingu tungumálsins.
Samt er það svo, að þegar maður horfir á flug tveggja hrafna sem snúa sér á hvolf og fetta sig og bretta í hermileik háloftanna og að því er virðist skellihlæja að leikaraskapnum, þá er ekki laust við að læðist að manni sá grunur að þessi göfuga list tilheyrir ekki okkur einum og upphaf hennar sé dýpra en… “við”.
Tilheyri kannski alveg eins fiskunum í sjónum.

(þögn, nýr tónn)

Þetta var heimspekilegi kafli þessa ávarps. Hér fenguð þið það sem til var ætlast, nokkur orð um upphaf og eðli leiklistarinnar.
Ég vona að þessi orð muni stuðla að skilningi og friði þjóða í milli.
(Dok)
Kæru áhorfendur. Nú mun þetta tal taka enda og sá sem hér stendur mun þagna svo átökin á sviðinu geti hafist.
Þeirra vegna erum við jú hér.
Þessu ávarpi er lokið.
Takk fyrir.

(Ræðumaður hneigir sig og dregur sig í hlé án þess að brosa.)

Leiðbeiningar:
Dok = 1-1,5sek.
Þögn = 2 til 3sek
Ef flytjandinn er lítt undirbúinn og því bundinn við blaðið þá ætti hann einungis að líta upp og á horfa á áhorfendur í dokum og þögnum.
Nýr tónn = frjáls og fer eftir innsæi og smekk flytjandi hvort og hvernig.

Benedikt Erlingsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1994 og lék Galdra-Loft í Óskinni eftir Jóhann Sigurjónsson haustið eftir. Hann setti upp leikritið Ormstungu, ásamt leikkonunni Halldóru Geirharðsdóttur og sænska leikstjóranum Peter Engkvist. Benedikt leikstýrði Skáldanótt eftir Hallgrím Helgason á Stóra sviði Borgarleikhússins haustið 2000 og haustið eftir lék hann Vladimir í Beðið eftir Godot eftir Samuel Beckett á Nýja sviðinu, í leikstjórn Peters Engkvist. Þá leikstýrði Benedikt á nýja sviði Borgarleikhússins: Fyrst er að fæðast eftir hina dönsku Line Knutson, And Björk of course… eftir Þorvald Þorsteinsson og Sumarævintýri – byggt á Vetrarævintýri Shakespeares. Benedikt var búsettur í Kaupmannahöfn um tveggja ára skeið og starfaði þar og víðar á Norðurlöndum. Hann kom heim og leikstýrið Draumleik eftir Strindberg í Borgarleikhúsinu vorið 2005 og fékk hann Grímuna fyrir leikstjórn sýningarinnar. Hann leikur um þessar mundir í einleiknum „Mr Skallagrimsson“ í leikstjórn Peter Enqkvist. Benedikt var stjarna Grímuhátíðarinnar síðastliðið vor en þar hreppti hann þrenn verðlaun, sem leikskáld og leikari ársins fyrir Mr. Skallagrímsson og sem leikstjóri ársins fyrir Ófagra veröld sem sýnd var á Stóra sviði Borgarleikhússins. Hann leikstýrði Sólarferð eftir Guðmund Steinsson fyrr á árinu og var það fyrsta leikstjórnarverkefni hans fyrir Þjóðleikhúsið.

 

robert_lepage.jpgRobert Lepage:

Alþjóða leiklistardagurinn, 27di mars 2008

Það eru til margar kenningar um uppruna leikhússins, sú sem hefur ætíð heillað mig mest er dæmisaga.

Nótt eina, í upphafi daga, var hópur fólks saman kominn í hellisskúta, þar sem fólk yljaði sér við eld og sagði hvert öðru sögur. Þá var það að einhverjum datt í hug að standa á fætur og nota skugga sinn til þess að myndskreyta sögu sína. Með hjálp birtunnar frá eldinum, lét hann yfirnáttúrlegar persónur birtast á hellisveggjunum. Hinir voru yfir sig hrifnir, þegar birtust þeim hver á eftir öðrum; sá sterka og hinn veiki, kúgarinn og hinn kúgaði, Guð og dauðlegir menn.

Á okkar tímum hafa ljóskastarar komið í staðinn fyrir bálköst og sviðsmyndir í staðinn fyrir hellisveggi. Án þess ég vilji hnýta í hreinstefnumenn, minnir þessi saga okkur á að tæknin hefur frá fyrstu tíð verið ómissandi þáttur leikhússins. Tæknina má ekki sjá sem ógn, heldur einmitt tækifæri til þess að sameina krafta.

Framtíð leiklistarinnar er undir því komin að hún endurnýi sig stöðugt og tileinki sér ný verkfæri og ný tungumál. Hvernig á leikhúsið að geta haldið áfram að vitna um átakalínur samtímans og vera merkisberi mannlegrar samkenndar, ef það tileinkar sér ekki víðsýni? Hvernig getur leikhúsið státað af því að bjóða upp á lausnir við óumburðarlyndi, útilokun og kynþáttahyggju, nema það rugli sjálft reytum við nýja mótleikara?

Til þess að geta sýnt heiminn í allri sinni flóknu dýrð verður listamaðurinn að bjóða upp á ný form og nýjar hugmyndir og treysta dómgreind áhorfandans, sem kann að lesa skuggamyndir mannkyns í hinum endalausa leik ljóss og skugga.

Sá sem leikur sér að eldi getur brennst. En hann getur líka heillast og uppljómast.

Þýðandi: Guðrún Vilmundardóttir.