eftir Bernd Ogrodnik

Mannsandinn er uppspretta endalausra vangaveltna, hláturs og gráturs, en það er sama hvernig við lítum á tilveru okkar, það er nær ómögulegt að skilja mikilfengleik hennar.

Stærsta gjöf listamannsins til mannkyns er ef til vill að geta á einhvern hátt tjáð það sem rökhugsun getur aldrei að fullu höndlað og kynslóðir vísindamanna ná aldrei að skýra að fullu – lífið sjálft.

Í æsku sýndum við leikrænu starfi hollustu, í viðleitni okkar til að höndla lífið … við kölluðum það leik. En svo gerðist eitthvað og við hættum þessum barnaskap, fyrir utan fá okkar sem gerðum hann að ævistarfi. Það sem gerðist var að hið vitræna tók yfir og strikaði yfir allar þversagnirnar…… og sjáið hvert það hefur leitt okkur.

bernd.gif
Við lifum á tímum þar sem mannleg tilvera virðist vera komin að krossgötum, ójafnvægið milli anda og efnis er orðið svo mikið að það þrýstir á leiðréttingu. Þrátt fyrir, eða kannski frekar – vegna allra framfara mannanna, erum við komin nálægt sjálfs-tortímingu. Við höfum hreinlega ekki náð því að þroskast andlega í takt við tæknilegar framfarir …… eða hættum við kannski bara að leika okkur?

En við eigum von, við búum enn að leikhúsinu sem þjónar okkur öllum. Á sviðinu getum við kafað djúpt í margbreytileika tilverunnar, ævintýri hins mikilfenglega mannlífs. Jafnvel er það eitt af síðustu ævintýrunum sem standa okkur enn til boða. Nú þegar við höfum klifið hæstu fjöll, sigrast á þyngdarlögmálinu og lært að fljúga og kafað niður á botn hins óendanlega úthafs, þá göngum við að leikhússenunni, þar sem við enn getum tekist á hendur könnunarleiðangra og skoðað allt það sem ímyndunarafl okkar nær að grípa.

Og ævintýrið gerist beggja vegna tjaldsins. Bæði áhorfendur og leikarar takast á hendur mikla áhættu í þessu stórkostlega ævintýri því það er aldrei að vita hvað bíður hinum megin við tjöldin.

Allt er mögulegt í leikhúsinu og möguleikum fylgir ábyrgð. Listin er ekki eingöngu til að skreyta mannlífið, leikhúsið ekki eingöngu skemmtun. Listin menntar og fræðir og hjálpar okkur til að skilgreina hver við erum sem menningarþjóð og hún lyftir upp mannsandanum.

Leikhúsið nærir okkur og býður okkur upp á óendanlega möguleika til að vaxa og þroskast.

Velkomin í leikhúsið.

{mos_fb_discuss:3}