Útlenski drengurinn er gamanleikur með alvarlegum undirtóni fyrir stálpaða krakka sem fullorðna. Dóri DNA leikur Dóra litla sem er vinsælasti strákurinn í bekknum þangað til hann er látinn taka svokallað Pítsa próf sem snýr öllu lífi hans umsvifalaust á hvolf. Hann er sviptur grundvallarmannréttindum og látinn bíða örlaga sinna innilokaður í myrkvaðri skólastofu. Verkið veltir upp spurningum um ríkisfang, einelti og þá tilfinningu að upplifa sig utangarðs.

Uppistandarinn og leikhúsmaðurinn Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, leikur sitt fyrsta stóra hlutverk á sviði íÚtlenska drengnum eftir Þórarinn Leifsson í Tjarnarbíó í haust. Það er leikhópurinn Glenna undir stjórn Vigdísar Jakobsdóttur sem setur verkið á svið. Frumsýning er 16. nóvember.

Segja mætti að Dóri litli sé nokkurs konar ýkt útgáfa af Dóra DNA sjálfum 12 ára. Stór eftir aldri, frekur en heillandi. Dóri segir fjölskyldutengsl við höfund verksins (sem er giftur Auði Jónsdóttur, náfrænku Dóra) meðal annars hafa leitt til þess að hann hafi fengið hlutverkið og þar með hafi langþráður draumur um hlutverk á sviði ræst. Dóri er þó ekki alls ókunnur leikhúsinu, enda er hann útskrifaður af sviðshöfundabraut Listaháskólans og hefur komið að ýmsum verkefnum bæði á sviði og í sjónvarpi. Hann er hluti af uppistandshópnum Mið-Íslandi og hefur komið fram með honum um land allt frá árinu 2009. Hann hefur leikið í Steindanum okkar og fleiri sjónvarpsþáttum. Þá hefur hann verið dramatúrg og aðstoðarleikstjóri í nokkrum sýningum í Þjóðleikhúsinu.

Aðrir leikendur í Útlenska drengnum eru Þorsteinn Bachmann, María Heba Þorkelsdóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Benedikt Karl Gröndal og Magnea Björk Valdimarsdóttir.