Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Utan gátta eftir Sigurð Pálsson laugardaginn 25. október nk. í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Sýningar verða í Kassanum við Lindargötu 7.

Sigurður Pálsson er eitt þekktasta leikskáld okkar, en auk leikrita hefur hann sent frá sér þrettán ljóðabækur og þrjár skáldsögur. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2007 fyrir Minnisbók. Þjóðleikhúsið sýndi leikrit Sigurðar, Edith Piaf, við miklar vinsældir. Leikrit hans hafa einnig meðal annars verið sett upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur, sem sýndi Einhver í dyrunum, Völundarhús og Hótel Þingvelli, og Nemendaleikhúsi Leiklistarskóla Íslands, sem sýndi Tattú, Miðjarðarför, Hlaupvídd sex og Undir suðvesturhimni.

Í ljóðum sínum, leikritum og prósaverkum hefur Sigurður gjarnan opnað okkur nýjar og óvæntar leiðir til að skynja veruleikann og öðlast nýja sýn. Í Utan gátta leiðir Sigurður, með sínum einstæða húmor, áhorfendur inn í heim þar sem rótað er upp í hugmyndum okkar um tilvist mannsins og möguleika leikhússins. Í Utan gátta hefur texti Sigurðar sig á flug í meðförum afburða leikara, svo úr verður hreint „snarskemmtileg“ sýning sem ögrar og kætir skilningarvitin.

Villa og Milla eru tvær persónur, innilokaðar. Þær eru á valdi einhvers sem við sjáum aldrei, en stjórnar kringumstæðum þeirra. Tvær saman eins og gamalt par, bundnar hvor annarri, eins og afbrýðisamar systur, börn í sandkassa. Þær eru stöðugt að leita leiða til að komast burt en geta engu treyst og sérstaklega ekki hvor annarri…

Leikarar í sýningunni eru Arnar Jónsson, Eggert Þorleifsson, Kristbjörg Kjeld og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Höfundur leikmyndar og búninga er Gretar Reynisson, Halldór Örn Óskarsson hannar lýsingu sýningarinnar og tónlist og hljóðmynd er í höndum Sigurðar Bjólu. Gervi hanna Árdís Bjarnþórsdóttir og Svanhvít Valgeirsdóttir.

{mos_fb_discuss:2}