Upptökur af sýningum þurfa nú skilyrðislaust að fara á vefinn. Það er ekki sjálfgefið að útbúa upptöku til að setja á vefinn sem uppfyllir 2 mikilvægustu skilyrðin á því sviði sem er að vera …

  1. … í ásættanlegum gæðum
  2. … af viðráðanlegri stærð

VIÐ MÆLUM MEÐ HANDBRAKE forritinu til að minnka upptökur án þess að tapa gæðum.

——————-

Upptaka – Hiklaust er mælt með að sýningar séu teknar upp í háskerpu (HD).  Alltaf er hægt að keyra út misstórar og -góðar útgáfur af upptökunni á form sem hentar en mikilvægt er að eiga master í mestu gæðum.

Myndvinnsla – Til er ókeypis (eða ódýr) hugbúnaður til að vinna vídeó á MacOS og Windows (og auðvitað Linux ef út í það er farið). Nokkur dæmi:

  • iMovie fylgir frítt með öllum Macintosh tölvum og er mjög öflugur hugbúnaður fyrir einfalda myndvinnslu.  Aðeins til fyrir Mac OS. Hægt að sækja frítt í AppStore.
  • Final Cut Pro X er hugbúnaður fyrir fagmenn. Aðeins til fyrir Mac OS.
  • Adobe Premiere  er hugbúnaður fyrir fagmenn. Til fyrir Mac OS og Windows.

Útkeyrsla (export) –
Þegar búið er að ganga frá upptökunni (klippa, hljóðsetja, setja texta og titla o.s.frv.) er hægt að keyra út myndina áður en hún er flutt á vefinn. (Vér biðjumst forláts á að enska er notuð þar sem ekki eru til viðurkenndar þýðingar á sumum hugtökum)

AVI, MOV, H.264, ProRes, MKV og MP4 eru algengar skammstafanir í vídeóvinnslu. Þær standa fyrir mismunandi “codecs” og “containers”. Algengt er að fólk rugli saman “codec” og “container” sem eru ekki sömu hlutirnir þó tengdir séu.

Container (ílát): avi, mov, mkv og mp4 (m4v) eru allt mismunandi ílát fyrir vídeo. Vídeóið getur verið í einhverjum af fyrrgreindum ílátum en síðan notast við mismunandi codec, t.d. h.264. Mælt er með að nota mp4 sem container ef setja á vídeó á vefinn. MKV er einnig gott ílát en athugið þó að mp4 er þó sérstaklega hentugt til að spila vídeó í vafra.
Alls ekki nota AVI eða WMV! 

Codec: h.264 er langalgengasta codec sem notað er fyrir vídeó á vefnum. Ástæðan er að það býður upp á bestu þjöppunina án þess að tapa umtalsverðum gæðum.
Verið er að þróa næstu kynslóð sem er h.265 (eða High Efficiency Video Coding (HEVC)) og ku það bjóða sömu gæði með tvöfalt minna plássi. Mælt er með að nota h.264 sem codec þó h.265 muni væntanlega smám saman ryðja sér til rúms á næstu árum.

ATH! Ofangreindar útskýringar er nokkuð einfaldaðar en það ætti ekki að koma að sök. 

Hugbúnaður fyrir útkeyrslu –
Góður, ókeypis hugbúnaður til að keyra út lítil vídeó í þokkalegum gæðum er Handbrake sem er til fyrir OSX, Windows og Linux.

Að neðan má sjá skjámynd úr Handbrake forritinu með stillingum sem gefa góða raun við að keyra út .mov skrá. Hægt er að velja „preset“ sem hentar fyrir vídeó sem hlaða á upp á Vimeo eða YouTube.