Stoppleikhópurinn frumsýnir leikritið Upp, upp eftir Valgeir Skagfjörð. Leikritið segir uppvaxtarsögu Sr. Hallgríms Péturssonar og var skrifað í tilefni af 400 ára afmæli skáldsins. Verkið byggir að stærstum hluta  á bókinni Heimanfylgju eftir Steinunni Jóhannesdóttur sem öðrum fremur hefur gert Hallgrími Péturssyni og konu hans Guðríði Símonardóttur skil í verkum sínum.

Sýningunni er fyrst og fremst ætlað að höfða til unglinga. Um er að ræða farandsýningu en efnt er til sérstakrar hátíðarsýningar í Gerðubergi miðvikudaginn 12. nóvember n.k. kl. 17.30.  Sýningin tekur 50 mínútur í flutningi og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Handritshöfundur og leikstjóri er Valgeir Skagfjörð. Leikarar eru Eggert A.Kaaber, Katrín Þorkelsdóttir og Valgeir Skagfjörð.