Ný íslensk leiksýning, Dauð og jarðarber, sem að sögn aðstandenda er grínharmleikur, var á fjölunum í Gúttó í Hafnarfirði í gær. Leiklistarvefurinn átti auðvitað mann á staðnum.
Félag flóna
Dauði og jarðarber
Sýnt í Gúttó í Hafnarfirði
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir

 

Grínharmleikurinn Dauði og jarðarber var sýndur almenningi í fyrsta sinn á laugardag. Sýningin fjallar um tvo bræður sem lifað hafa í í skugga ömmu sinnar sem er stjórnsöm í meira lagi. Þegar hún óvænt geispar golunni breytist líf þeirra svo um munar og bræðurnir þurfa að fara taka ákvarðanir um eigið líf sem reynist þeim ekki auðvelt. Dauði og jarðarber er unnin í spunavinnu og að sögn aðstandenda er sýningin verk í vinnslu og á enn eftir að breytast og slípast. Slík vinnubrögð hafa lítið verið viðhöfð hér á landi þó leiða megi rök að því að marga leiksýninguna væri hægt að bæta og ná lengra með, ef aðstandendur leyfðu sér slíkt. Sérstaklega á þetta við þar sem sýningin eru smám saman búin til á staðnum eins og hér er gert.

ImageLeikmyndin er einföld enda í ráði að hún sé ferðafær. Þó væri hægt að vinna hana betur og einfalda enn meir. Sömu sögu er að segja af lýsingu og hljóði sem gjarnan mætti huga betur að. Trúðsleikur er áberandi í leikstíl sýningarinnar og leikararnir tveir Gunnar Björn og Snorri skila sínu með sóma og reyndar á köflum, hreint frábærlega. Gunnar Björn hefur áður sýnt hæfileika sína í trúðsleik og gerir það aftur hér með brilljant frammistöðu í sumum senum. Gunnar er að jafnaði í hinu öllu þakkklátara hlutverki „grínarans“ meðan persóna Snorra er öllu alvarlegri. Ekki má horfa framhjá því að þegar um klassískt kómískt tvíeyki af þessu tagi er að ræða fellur framlag „grínarans“ flatt ef hann hefur ekki hæfileikaríkan félaga sem hefur m.a. góða tilfinningu fyrir tímasetningum. Þeir tvímenningar ná greinilega vel saman og áttu hvor um sig frábæra spretti.
Þó saga bræðranna sé bakgrunnur þess sem gerist á sviðinu eru mörg atriðanna óbeint tengd sögunni og sum þeirra gætu þess vegna staðið ein. Reyndar náði sýningin stundum mestu flugi þegar leikarar og leikstjóri virtust ekki vera að hugsa of mikið um framvinduna heldur voru einfaldlega að leika sér með hluti og aðstæður. Gott dæmi um slíkt var t.d. atriðið í upphafi með hina dansandi fætur sem var stórskemmtilegt og dæmigert fyrir hinn leiftrandi húmor og hugmyndaflug sem oft einkenndi það sem fram fór. Veikustu kaflar sýningarinnar eru nefnilega þegar textinn fær að ráða ferðinni. Sögurnar sem sagðar eru voru of langar og dampurinn datt þá stundum niður.

Stóra spurningin sem undirritaður sat eftir með í lokin var hvort ekki hefði náðst miklu skýrari og sterkari heildarmynd ef sýningin hefði verið án orða. Ef undan eru skildir einstaka brandarar var ekkert það í textanum sem ekki var hægt að koma á framfæri á einfaldari og skemmtilegri hátt með sjónrænum hætti. Með því að skera burt textann nema kannski lykilorð eins og nöfn yrði heildarmyndin mun sterkari og sýningin eftir því betri. Meginkonseptið er nefnilega frumlegt og býður ótal möguleika, leikararnir sýna að þeir hafa burði til að takast á við hvaðeina sem leikstjórinn leggur þeim á herðar og leikstjórinn sjálfur, Ágústa Skúladóttir sýnir það hér, eins og svo oft áður, að fáir ef nokkrir standa henni á sporði í að búa til frumlegt, kraftmikið og lifandi leikhús. Dauði og jarðarber er á þessu stigi í ferlinu góð skemmtun sem hefur með frekari vinnslu, alla burði til að verða framúrskarandi. Fróðlegt verður að fylgjast með þeim breytingum sem væntanlega eiga eftir að verða.

 

Hörður Sigurðarson