Guðrún Halla Jónsdóttir, formaður Bandalagsins, stýrir fundi.
Fundarmenn kynna sig.

Gagnrýnimál Morgunblaðsins,
Þorgeir Tryggvason reifaði málið.
Morgunblaðið hætti að senda gagnrýnendur á sýningar áhugaleikhúsa í haust sem leið. Bandalagið gerði athugasemd við það og í framhaldinu var haldinn fundur með ritstjóra Morgunblaðsins, ritstjóra menningarefnis, og fleirum. Í framhaldi af því var stjórn Bandalagsins falið að útbúa lista yfir hugsanlega gagnrýnendur í hverju byggðarlagi, sem hún og gerði. Síðan heyrist ekki meira af málinu fyrr en nú eftir áramót, þegar í ljós kemur að einhver áform eru uppi um að birta gagnrýni á frumsamin verk. Þetta hefur þó ekki gengið eftir.

Spurt var hvort Morgunblaðið myndi birta innsenda gagnrýni.
Þorgeiri þótti líklegt að það yrði, þó líklega ekki með öðru menningarefni, heldur með öðrum innsendum greinum.

Spurt var hvort hugsanlega væri hægt að semja við blaðmiðla um að birta gagnrýni af leiklist.is.

Vilborg sagði frá fundunum tveimur sem hún sat með Morgunblaðsmönnum. Sá fyrri var fljótlega eftir áramót 2006. Það var verið að leita leiða til að halda umfjöllun áfram, og m.a. kallað eftir listum yfir gagnrýnendur í heimabyggðum. Listinn var unninn á skrifstofu í samstarfi við stjórn, en ekkert gerðist. Á fundi sem Morgunblaðið boðaði síðan til fyrir skemmstu lögðu menn þar til að við stofnuðum blogg um áhugaleiklist á Morgunblaðsvefnum. Þar með færu hugsanlega einhverjir hlutar af því sem þar væri skrifað, í blaðið. Morgunblaðsmenn segjast vera með þessu að vekja athygli á samtökunum og starfsemi þeirra. Einnig bjóðast þeir til að hafa banner á forsíðu mbl.is fyrsta mánuðinn.
Á þessum fundi kom skýrt fram að auk peningamála kæmi plássleysi í blaðinu líka í veg fyrir birtingu gagnrýni um áhugaleikhús. Vilborg sagðist telja að ekki væri að vænta frekari gagnrýni á áhugaleikhús í Morgunblaðinu.

Rætt var um samstarf við aðra fjölmiðla, en menn efuðust um að fríblöðin hefðu  efni á að halda úti gagnrýni á landsvísu, þannig að það þyrfti að vera samstarf með öðrum formerkjum.

María Guðmundsdóttir, Leikfélagi Mosfellssveitar, taldi gagnrýni í Morgunblaðinu hafa mikið kynningargildi fyrir sýningar og væri lykilatriði til að fylgjast að einhverju leyti með sýningum úti á landi. Henni þótti bull hvað tónlistargagnrýni fengi mikið pláss í blaðinu á meðan áhugaleiklist kæmist ekki að.

Rætt var vítt og breitt um nauðsyn þess að gagnrýni birtist í blöðunum, en ekki bara á netinu. Einnig var nokkuð rætt um hvernig félögum gengi að fá annars konar umfjallanir  vegna sýninga sinna í öðrum fjölmiðlum. Virtist það fara nokkuð eftir því hversu áhugasamir fréttaritarar landshlutanna væru um málið. Einnig voru menn ekki á einu máli um hvort Morgunblaðið væri endlega heppilegasti vettvangurinn fyrir umfjallanir og gagnrýni þar sem það er áskriftarblað og áskrifendum virðist fara fækkandi.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, ritari skrifstofu Bandalagsins, stakk upp á því að Bandalagið, í samvinnu við styrktaraðila og/eða blaðmiðil, réði tvo gagnrýnendur sem sín á milli tækju að sér að sjá allar áhugaleiksýningar Bandalags- og framhaldsskólaleikfélaga það árið og skrifa umfjallanir sem myndu birtast á Leiklistarvefnum og í samstarfsmiðli. Veiting tréhaussins yrði jafnframt endurvakin.

Fundir – málþing – námskeið – leiklistarhátíðir… Hvað vilja menn gera?
Guðfinna Gunnarsdóttir kynnti.

Rætt var hvort hægt væri  að grípa til einhverra ráða til að fá fólk til að mæta á aðalfundifundi Bandalagsins.
Einnig var rætt um að halda tækninámskeið samhliða þeim námskeiðum sem haldin hafa verið í Svarfaðardal. Fram kom að nokkrum sinnum hefur Bandalagsskólinn reynt að halda námskeið fyrir ljósamenn, en oftar en ekki þurft að hætta við vegna þátttökuleysis. Hins vegar hafa bæði Selfyssingar og Hafnfirðingar haldið svoleiðis í heimabyggð, sem þó hefur verið opið öllum, og fengið góða þátttöku. Því má leiða að því líkum, miðað við reynslu undanfarinna ára, að betur gefist að halda slík námskeið “heima í Héraði” heldur en á vegum Bandalagsins.

Breyting á fyrirkomulagi aðalfunda
Reifaðar voru hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi aðalfunda, sem Vilborg og Guðrún Halla hafa verið að vinna. Tillagan hljoðar upp á að aðalfundur yrði aðeins haldinn annað hvert ár, með hefðbundnu sniði, en hitt árið væri samkoma sem nefndist Bandalagsþing og væri frjálsari í sniðum, með hugmyndavinnu, leiklistartengdum námskeiðum, einþáttungahátíð og slíku. Þetta gerði það að verkum að félög þyrftu aðeins að senda fulltrúa á eina samkomu á ári, án þess að þeirri umræðu og hugmyndavinnu sem gjarnan fer fram á haustfundum, sem yrði sleppt. Reynt yrði að fá sem flesta til að mæta á Bandalagsþing og taka þátt í hugmyndavinnunni sem þar færi fram. Allir hefðu atkvæðisrétt á Bandalagsþingum.

Hrefnu þótti hugmyndin full róttæk og taldi aðalfundi vel geta verið skemmtilegri. Til dæmis væri hægt að fara frjálslegar með dagskrá aðalfundar. Hún taldi samtökunum hollt að starfsáætlun væri rædd einu sinni á ári. Hún taldi einnig að þó ætlunin væri að hafa Bandalagsþing lausari í forminu, yrðu sjálfsagt fljótlega til hefðir og dagskrá í kringum þau. Henni þótti vænlegra að reyna að gera aðalfundi frjálslegri og skemmtilegri og sleppa haustfundum. Hrund talti ekkert að því að leika í tengslum við aðalfundi á hverju ári.

Nokkrar umræður spunnust um hvort annar tími væri hentugri fyrir aðalfundi. Núverandi tími er vondur fyrir bæði bændur og kennara. Fram kom að þetta væri rætt reglulega, en líklega væru flestir tímar óheppilegir fyrir einhverja starfsstétt, auk þess sem félög væru að sýna meira og minna allan veturinn. Þó var velt upp hugmynd um að festa aðalfund alltaf á einhvern einn tíma, og mönnum yrði gert að taka æfingahlé þá. Velt var upp hugmyndum um daginn sem áður var kallaður Dagur áhugaleikhúss á Íslandi, 2. laugardagur í nóvember, sem og að tengja aðalfund við skólann.

Fasteignamál
Vilborg sagði frá því að nú væri komið tími á talsvert viðhald á húsnæði skrifstofunnar. Auk þess væru aðgengismál þar í ólestri og handritasafnið hefði átt við lekavandamál að stríða, nánast frá upphafi. Það væri því í pípunum að leita samþykkis aðalfundar fyrir því að húsnæði skrifstofunnar við Laugaveg 96 yrði selt og leit hafin að hentugra húsnæði, með betra aðgengi, utan miðbæjarins, þar sem fasteignaverð er lægra. Þar væri þá jafnvel hægt að fá húsnæði á jarðhæð eða í lyftuhúsi fyrir sama, eða lægra verð.

Margt smátt
Rætt var um stuttverkahátíðina Margt smátt sem til stendur að halda í haust.
Ármann reifaði hugmyndir sem undirbúningsnefnd (hann sjálfur, Hrund og Ólöf) hefðu verið að vinna. Hugmyndin var að hafa hátíðina sjálfa að degi til í Borgarleikhúsinu, en hafa síðan partí einhvers staðar annars staðar um kvöldið. Hugmyndin er að halda hátíðina um mánaðamót september og október. Ármann ræddi einnig um að e.t.v. hefðum við komið stuttverkaforminu á framfæri með Mörgu smáu, en síðasta vetur hefðu bæði Borgarleikhús og Þjóðleikhús haldið stuttverkasamkeppnir fyrir ungt fólk.

Nokkrar umræður spunnust um tímasetningu hátíðarinnar, hvort betra væri að hafa hana að hausti eða vori. Þótti mönnum haustið ágætistími til að taka upp þætti frá fyrra ári.

Rætt var um form hátíðarinnar. Spurt var hvort rætt hefði verið að dreifa henni yfir lengri tíma, jafnvel nokkra daga.
Vangaveltur komu upp um að hafa dagskrána ekki endilega innan tímamarka einnar sýningar, heldur yrði hún brotin upp nokkrum sinnum,  með götuleikhúsi og atriðum í anddyri. Einnig komu fram hugmyndir um að hafa einhvers konar sýningu í anddyri, samhliða hátíð. Einnig var stungið upp á að byrjað yrði á að ganga fylktu liði frá skrifstofu Bandalagsins í Borgarleikhúsið.

Ljóst þótti að Bandalagið þyrfti að taka frumkvæði að, og leggja vinnu, tíma og peninga í að gera hátíðina umfangsmeiri og sýnilegri.

Lauslega var rætt um hvort ásættanlegt væri að mæta á hátíð með verk sem ekki væru í frumuppsetningu. Mönnum þótti alls ekki nauðsynlegt að um frumuppfærslur væri að ræða, þó svo að ljóst væri að í félögum þar sem á annað borð væri höfundastarf, væri þetta vissulega góður vettvangur til að æfa sig. Einnig kom fram að sum félög, eins og til dæmis Hugleikur, ætti nokkuð af óuppsettum þáttum á lager sem önnur félög mættu alveg skoða, ef þau bæru sig eftir því. En klassískir þættir eftir þekkta, jafnvel erlenda höfunda þótti mönnum ekki eiga minna erindi. Í framhaldi af því var rætt um hvort hægt væri að gera félögunum auðveldara fyrir að velja sér þætti til uppsetningar, með því, m.a., að birta þætti á vefnum.

Nokkuð var rætt um hvað hátíðin gerði fyrir félögin. Fram kom að hún hjálpaði félögunum að hlúa að stuttverkaforminu, en mun auðveldara er að skrifa, leikstýra og leika í stuttverkum heldur en sýningum í fullri lengd og er það umhugsunarefni nú þegar flest leikfélög virðast eiga í vandræðum með að fá mannskap til starfa.

Fundi slitið.
Fundargerð ritaði Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.