Frestur til að sækja um að fara með leiksýningu á leiklistarhátíðina í Sønderborg í Danmörku dagana 31. júlí – 5. ágúst rennur út þann 15. febrúar nk. Aðildarfélög Bandalags íslenskra leikfélaga geta sótt um að fara með sýningu á hátíðina. Þau sækja um til Bandalags ísl. leikfélaga á eyðublöðum sem finna má hér . Upptökur af sýningum þurfa að fylgja umsóknum. Ef fleiri en ein sýning sækir um skipar stjórn Bandalagsins valnefnd sem velur sýningu.

Hátíðin verður sú sjöunda í röð NEATA-leiklistarhátíða.Hátíðin verður með hefðbundnu sniði; leiksýningar frá öllum NEATA-löndunum og tveimur öðrum evrópulöndum að auki, gagnrýni, leiksmiðjur, námskeið og samvera í hátíðarklúbbi.

Hvert land má senda eina leiksýningu sem er að hámarki 90 mín. löng. Leikið verður á leiksviðum í hefðbundnum leikhúsum. Hátíðin er ætluð fullorðnum, þ.e.a.s. þátttakendur í sýningunum skulu ekki vera yngri en 18 ára nema í undanltekningartilfellum. Hátíðin greiðir uppihald og þátttöku í hátíðinni fyrir 10 manna hópa frá hverju landi, ef hóparnir eru stærri bera þeir sjálfir umframkostnað vegna uppihalds. Leikhóparnir gista í fjögurra manna herbergjum á svokölluðum hostelum. Ferðakostnaðinn greiða þátttakendur sjálfir.

Ísland þarf að tilkynna Dönum hvaða leiksýning fer á hátíðina fyrir 20. febrúar 2012.

NEATA, norður evrópska áhugaleikhúsráðið, var stofnað 1998 og heldur samskonar hátíðir á tveggja ára fresti, en þau lönd sem hafa skipulagt fyrri hátíðir eru Litháen, Svíþjóð, Eistland, Færeyjar, Lettland og svo Ísland á Akureyri 2010.

Aðildarlönd NEATA eru Danmörk, Eistland, Finnland, Færeyjar, Ísland, Lettland, Litháen, Noregur og Svíþjóð.

{mos_fb_discuss:3}