Það er skemmtilega táknrænt að Leikfélag Hafnarfjarðar skuli sýna „Hamskiptin“ eftir Franz Kafka um þessar mundir. Þetta fornfræga leikfélag hefur átt erfitt uppdráttar í nokkur ár og hefur þar helst verið um að kenna húsnæðiskorti. Það má segja að félagið hafi verið að skipta um ham undanfarin misseri og nú þegar það er komið í nýtt húsnæði í Lækjarskóla má segja að hamskiptin séu fullkomnuð.
Í aðstöðu félagsins í Lækjarskóla hefur verið búið til skemmtilegt leikhúsrými þó ekki sé úr miklu að spila. Leikmynd „Hamskiptanna“ er mjög skemmtilega upp sett og hálfveggirnir sem skiptu herbergjum íbúðarinnar gáfu tilfinningu fyrir mismunandi rýmum þó að sviðið væri opið. Áhorfendur eru í mikilli nálægð við leikarana sem hefur bæði kosti og galla. Undirritaður sat þannig að sviðið var ekki allt sýnilegt og þurfti að snúa höfðinu ýmist til hægri eða vinstri eftir því hvar leikið var. Slíkt er hið besta mál ef þess er gætt að skipting milli atriða sé skýr fyrir áhorfendum. Því var ekki alltaf að heilsa og stundum var ekki alltaf ljóst strax hvert leikstjórinn vildi að áhorfendur beindu athygli sinni. Tíðar myrkvanir milli atriða trufluðu einnig flæði sýningarinnar og þar hefði mátt nota aðrar aðferðir.

Sú aðferð að sýna ekki líkamlega umbreytingu á Gregor heldur láta rödd og hreyfingar leikarans ásamt ímyndunarafli áhorfenda koma henni til skila gerir miklar kröfur til leikarans. Á stundum náði Gunnar Björn Guðmundsson að skapa trúverðuga mynd í huga þess sem þetta ritar. Atriðið þar sem Gregor matast vakti t.d. mikil viðbrögð áhorfenda. Í heildina var túlkunin þó full einhæf til að halda þeim trúverðugleika allan tímann. Þar hefði mátt vinna mun meira með þá möguleika sem hutverkið býður upp á. Einnig vaknar sú spurning hversvegna annar leikari er látinn leika Gregor af og til í sýningunni. Ekki var sýnileg ástæða til þess og sú ráðstöfun var þegar allt kom til alls, einungis truflandi fyrir áhorfendur. Leikarar standa sig misvel og sá reyndi leikari Halldór Magnússon gerir ágætlega í hlutverki föðurins en hefði vafalaust notið sterkari mótleiks og skýrari sýnar á persónuna. Ýmis atriði í sýningunni voru þó skýr og áhugaverð og má þar sem dæmi nefna matmálstíma fjölskyldunnar og matargerðina fyrir Gregor.

Það er í mikið ráðist að setja upp svo flókið verk sem „Hamskiptin“ eru. Verkið er langt frá því að vera einfalt enda margar leiðir færar í nálgun leikstjóra og leikhóps. Að mínu viti hefði verið skynsamlegra fyrir leikstjóra sem er að stíga sín fyrstu skref að spreyta sig á einfaldara verki. Á köflum sýnir Snorri Engilbertsson að hann er hugmyndaríkur og hefur góða tilfinningu fyrir leikhúsinu en helsti galli sýningarinnar er að hana skortir stefnu. Ekki er ljóst hvað verið er að segja áhorfendum með þessari einkennilegu sögu af Gregor og fjölskyldu hans og þar er einfaldlega ekki hægt að benda á neitt nema leikstjórnina. Jafnframt er spurning hvort stílfærðari útfærsla á ýmsum atriðum hefði ekki aukið áhrifamátt sýningarinnar. Kynlífssena hjónanna er gott dæmi um framangreint stefnuleysi. Hugmyndir sem þykja sniðugar þegar þær verða til á æfingum eiga ekki alltaf erindi í sýninguna. Það er auðvelt að fá viðbrögð frá áhorfendum en ef þau þjóna ekki sýningunni og þeirri sýn sem verið er að koma á framfæri er betra að sleppa þeim.
Sýning LH á „Hamskiptunum“ er metnaðarfull tilraun sem tekst ekki á ölllum sviðum en nær þó oft að vera spennandi og áhugaverð. Ekki er þó að efa að uppsetningin verði aðstandendum lærdómsrík og von að það sem miður fer verði mönnum til hvatningar frekar en að letja.

Leikfélag Hafnarfjarðar er ekki aldeilis komið í sumarfrí eins og flest leikfélög landsins. Þar á bæ eru menn stórhuga með afbrigðum og Hamskiptin eru aðeins fyrsta sýningin af fimm sem ætlunin er að sýna á næstu fimm mánuðum. Ekki er annað hægt en að dást að þeim metnaði og krafti sem ólgar í Firðinum og það er tilhlökkunarefni að fá að líta reglulega í heimsókn þangað næstu mánuði.

Hörður Sigurðarson