Undanfarnar vikur hafa félagar í Umf. Reykdæla í Borgarfirði æft revíuna Ert´ekk´að djóka (elskan mín)? eftir Bjartmar Hannesson kúabónda og söngvaskáld frá Norðurreykjum í Hálsasveit. Leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson. Revían gerist að miklu leyti á ferðaþjónustubænum Efri-Bæ, þar sem sjaldnast er einhver lognmolla. Einnig er litið við í fjósinu á Neðri-Bæ þar sem eftirlitsmaður frá þannig eftirlitsstofnun kemur og lítur á svæðið.
Í revíunni er farið vel í gegnum ævafornar asískar aðferðir til eflingar andlegs þroska og til styrktar huga og líkama. Franskur kokkur kennir pottþétta aðferð til að útbúa rauðvínssósu „bara nógu mikið rauðvín“. Fornleifagröfur í Reykholti, rauðir varðliðar og vellauðugur kínverji koma við sögu ásamt sérlegum sendiboða páfans í Róm.
Þetta er þriðja verkið sem Bjartmar semur fyrir Umf. Reykdæla á nokkrum árum. Árið 2009 samdi hann söngleikinn Töðugjaldaballið (sendu mér sms) og var það sýnt við góðar undirtektir í Logalandi, vorið 2011 var svo sett upp revían Ekki trúa öllu sem þú heyrir og nú er það eins og áður segir Ert´ekk´að djóka (elskan mín) ?
Frumsýnt verður í Logalandi föstudaginn 7. mars kl. 20.30.
2. sýning sunnudaginn 9. mars kl. 20.30.
3. sýning fimmtudaginn 13. mars kl. 20.30.
4. Sýning föstudaginn 14. mars kl. 20.30.
5. Sýning laugardaginn 15. mars kl. 20.30.
Miðaverð kr: 2.500 fullorðnir, kr. 1.500 fyrir 7-14 ára og frítt inn fyrir 6 ára og yngri.
Miðapantanir í síma 699-7938 eftir kl: 16:00 eða í tölvupósti tota@vesturland.is