Sunnudaginn 3. maí hyggst Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur skoða lánaða líkama í tveimur ólíkum sólódansverkum. Macho Man er sólóverk fyrir danslistakonuna Sögu Sigurðardóttur. Kafað er ofan í sveitta undirheima bardagaíþrótta, Macho dansstíla og fitnesskeppna. Sýningin er afrakstur vinnustofu á Dansverkstæðinu og er styrkt af Hlaðvarpanum, menningarsjóði kvenna. Í Saving History er útgangspunkturinn persónuleg danssaga Katrínar síðustu 15 árin og þá sérstaklega samband hennar við lánað efni frá öðrum danshöfundum. Verkið var frumsýnt við frábærar viðtökur á Reykjavík Dance Festival í ágúst 2014.
Katrín Gunnarsdóttir (f. 1986) lærði dans við Listaháskóla Íslands og kóreógrafíu við ArtEZ listaháskólann í Hollandi. Eftir útskrift hefur hún unnið víða sem dansari og höfundur. Sem dansari hefur Katrín unnið með Sögu Sigurðardóttur, Ernu Ómarsdóttur og Kris Verdonck ásamt fleirum. Katrín hefur einnig starfað með sjálfstæðum sviðslistahópum, sinnt danskennslu og samið sviðshreyfingar fyrir leikhús. Hún er formaður Danshöfundafélags Íslands. Katrín er einnig með MS-gráðu í heilsuhagfræði og vinnur sjálfstætt sem sérfræðingur og við rannsóknir.
Saga Sigurðardóttir (f. 1982) er dansari, danshöfundur og guðfræðinemi frá Reykjavík. Eftir nútímadansnám við Listdansskóla Íslands nam hún danssmíði við ArtEZ listaháskólann í Hollandi hvaðan hún útskrifaðist 2006. Saga hefur síðan starfað sem dansari og höfundur með fjölmörgum listamönnum og sviðslistakollektífum hérlendis og erlendis og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir. Fyrr á þessu ári var BLÝKUFL, fyrsta verk Sögu fyrir Íslenska dansflokkinn, frumsýndur í Borgarleikhúsinu og eins var Minnisvarði 16 elskenda, sem Saga er liðsmaður í, frumsýndur í Tjarnarbíói á Góunni. Saga kennir reglulega við sviðslistadeild LHÍ og hefur um árabil verið stjórnarmeðlimur Reykjavik Dance Festival og Dansverkstæðisins.
Miðasala er hafin á Miði.is.
Verkið er styrkt af Reykjavíkurborg og Dansverkstæðinu.
Nánari upplýsingar á: www.katringunnars.com.