Fimmtudaginn 21. okt kl. 20 verða tvær danssýningar sýndar í Tjarnarbíói, Singletrack eftir Jacek Luminski flutt af dönsurum ÍD og Colorblind eftir Sigríði Soffíu með dönsurum frá Silesian Dance Theatre. Þessar sýningar eru hluti af Dance Bridge verkefni Silesian Dance Theatre Pólandi, ÍD og SL á Íslandi og Samovarteateret Noregi.

Singletrack
List er líf, og lífið er fullt af list! Verkið er falleg og nákvæm sýning með fimleika-ívafi, skipt niður í nokkra hluta sem taka á einstökum þáttum hins hversdagslega lífs. Líkaminn sem aðalskynfærið okkar og veraldleikin eru helstu þemu verksins en söguþráðurinn er fólgin í hinni lifandi heild sem endurskapast í hver skipti sem verkið er sett á svið.

Colorblind
Með tímanum áttarðu þig á því að þó þú sért litblindur, þá er heimurinn í lit! Colorblind er saga um tilveruna og ástand okkar í heiminum. Pólskur gagnrýnandi sagði eftirfarandi um sýninguna: „Sýningin leiðir áhorfandann inn í heim þar táknmyndir mannlegs lífs taka á sig efnislega mynd. Frá myrkvuðu sviðinu berast raddir sem leiða okkur inn í hinn ímyndaða heim þar sem maðurinn tekst á við líf sitt í hvirfilvindi heimsins“.

Nánar um Dance Bridge verkefnið
Verkefnið er unnið undir forystu Silesian Dance Theatre í samstarfi við Íslenska dansflokkinn, Sjálfstæða Leikhópa og Samovarteateret með styrkjum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Auk sýninga stendur hópurinn einnig að vinnusmiðjum og námskeiðum sem er mikilvægur hluti samstarfsins. Aðaltilgangur Dance Bridge er samanbræðingur ólíkra menninga þar sem listamenn með ólíkar fagurfræðilegar hugmyndir og reynslu koma saman.

Íslenski dansflokkurinn
Íslenski dansflokkurinn er framsækinn nútímadansflokkur skipaður úrvalsdönsurum í hæsta gæðaflokki. Flokkurinn leggur áherslu á að kynna íslenskum áhorfendum metnaðarfull verk og mikilvægustu höfunda í nútímadansi. Íslenski dansflokkurinn hefur byggt upp nafn og viðurkenningu á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum. Flokknum hefur verið boðið að sýna í mörgum af helstu leikhúsum og hátíðum erlendis. Hér heima sýnir ÍD reglulega í Borgarleikhúsinu sem og að halda danssmiðjur til að styðja við bakið á ungum og upprennandi danshöfundum. Einnig hefur flokkurinn staðið fyrir verkefnum til að kynna og efla áhuga á danslistinni hjá ungu fólki. Dansflokkurinn er sjálfstæð ríkisstofnun og er forstöðumaður hans Katrín Hall, listrænn stjórnandi.

Silesian Dance Theatre
Dansarinn og danshöfundurinn Jacek Luminski stofnaði hópinn árið 1991 í Póllandi. Síðan þá hefur hópurinn, undir leiðsögn Luminski, skapað sinn eigin stíl og er nú leiðandi afl í nútímadansi og leikhúsi í Póllandi. Það skipuleggur og framleiðir sýningar bæði í heimalandi sínu og út um allan heim auk þess að vera hluti af margvíslegum listrænum verkefnum.

{mos_fb_discuss:2}