Tveimur aukasýningum á Ástardrykknum hefur verið bætt við í janúar, föstudaginn 15. janúar og laugardaginn 23. janúar kl. 20. Eru þetta allra síðustu sýningar á þessari vinsælu og skemmtilegu sýningu, sem slegið hefur í gegn jafnt hjá áhorfendum sem gagnrýnendum. Í aðalhlutverkum eru Dísella Lárusdóttir, Garðar Thór Cortes, Bjarni Thor Kristinsson, Hallveig Rúnarsdóttir og Ágúst Ólafsson.

Ástardrykkurinn eftir Donizetti er bráðskemmtileg gamanópera, sem fjallar um tilraunir ungs manns til að vinna hug ungrar konu. Þegar allt annað bregst leitar hann á náðir kuklara nokkurs sem útvegar honum svokallaðan ástardrykk. Að lokum fer þó allt vel, eins og svo oft í óperum, og hin sanna ást sigrar að lokum.

Sama listræna stjórn og stóð að hinni vel heppnuðu uppfærslu á Cosí fan tutte Mozarts í Óperustúdíói Íslensku óperunnar vorið 2008 stendur að uppfærslunni á Ástardrykknum; þau Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Guðrún Öyahals leikmyndahönnuður, Katrín Þorvaldsdóttir búningahönnuður og Páll Ragnarsson ljósahönnuður. Hljómsveitarstjóri er líkt og þá Daníel Bjarnason. Þá tekur kór og hljómsveit Íslensku óperunnar ennfremur þátt í sýningunni.

Almennt miðaverð 5.400 kr. Sími miðasölu er 511-4200 og er opið alla daga kl. 14-18, en netmiðasalan er opin allan sólarhringinn á www.opera.is

{mos_fb_discuss:2}